144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[16:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að þegar nefndin hefur fengið málið til umfjöllunar og kallað verður eftir skýringum á þeim atriðum sem hér eru nefnd muni menn fljótt átta sig á því að málið er ekki jafn flókið og mér finnst menn láta liggja að hér í umræðunni.

Varðandi eiginfjárstöðu Seðlabankans og færslu á stofnfé bankans í ríkisreikningi er rétt að þar er nokkur munur. Það er munurinn á þessu tvennu ásamt með áætlaðri afkomu bankans á yfirstandandi ári sem leiðir til þess að tekjufærslan af þessum 26 milljörðum verður á endanum 21 milljarður, þ.e. stofnféð verður tekið niður um um það bil 5 milljarða, áætlað, en þetta er í sjálfu sér atriði sem geta komið í ljós síðar. Við erum að fást við hluti sem munu ekki verða að fullu ljósir fyrr en í lok árs. Svona er þetta lagt upp, við erum að áætla að þetta verði nákvæmlega svona. Er það eitthvert sérstakt vandamál? Nei. Í mínum huga er það bara ekkert vandamál.

Þessi 26 milljarða tala, mér finnst menn ekki geta talað um hana eins og hún hafi verið gripin úr lausu lofti og hafi af einhverjum ástæðum þótt henta ágætlega til þess að bæta afkomu ríkissjóðs á árinu, það er auðvitað ekki þannig. Í þessu máli hefur verið unnið frá árinu 2012, þó með hléum, en töluvert mikið allt þetta ár. Og að sjálfsögðu er það þannig að sú tala er fengin eftir nákvæmar viðræður við Seðlabankann um að þetta kunni að vera það svigrúm sem bankinn sé sáttur við að færist yfir til ríkisins í tengslum við þessar breytingar á reglunum annars vegar, og svo skulum við ekki gleyma því að fyrr á þessu ári skrifaði ríkið aftur upp á vexti á Seðlabankabréfinu sem hérna er undir.

Aðeins rétt í blálokin til að koma réttum upplýsingum á framfæri varðandi skuldabréfið. (Forseti hringir.) Eftir að þessi færsla færi inn á bréfið yrði staða þess um 145 milljarðar. Ég hafði sagt við hv. þingmann að það væri nærri 130 en það er um 145, það er eftir að það hefur lækkað (Forseti hringir.) um þessa 26 milljarða.