144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[16:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður setur mig í nokkurn vanda. Ég ætla ekki að þykjast vera meiri spesíalisti í þessum efnum en ég er; ég er það langt í frá. Svo mikið veit ég þó að efnahagsreikningur og uppgjör á Seðlabanka er nokkuð sérstakt fyrirbæri, eins og hv. þingmaður vekur vissulega athygli á með spurningum sínum, það er alveg rétt. Það koma líka til sögunnar aðrir hlutir eins og myntsláttuhagnaður og fleira sem er mjög óvenjulegt, og aðrir búa ekki við þær aðstæður. Þess vegna, eins og ég sagði, er nú stundum sagt um seðlabanka að þeir geti svolítið stjórnað afkomu sinni sjálfir, að minnsta kosti hvað varðar innlenda hagkerfið og lögeyrinn. En annað á við þegar kemur að erlendum eignum og skuldum.

Jú, í vissum skilningi hallast ég að því að vísbendingarnar séu frekar í þá átt að eigið fé sé fært á of íhaldssaman hátt en hitt, ég hallast frekar að því. En kannski verðum við einfaldlega á fundi í okkar ágætu þingnefnd að fara betur yfir þetta og fræða hver annan nákvæmar um það.

Ég varpaði líka fram spurningum sem snúa að því hvernig þessi aðgerð lítur út út á við. Ég auglýsi eftir sjálfboðaliðum að reyna að útskýra þetta fyrir leikmönnum, þessa skrýtnu æfingu, og hvernig þetta getur myndað gróða, tekjufærslu hjá ríkinu. Að lækka eigið fé Seðlabankans, sem ríkið á, og nota þá fjármuni til að lækka skuldina sem ríkið er með vegna þess að það fjármagnaði Seðlabankann — finnst engum það svolítið skrýtin flétta? Mér finnst hún alla vega skemmtileg en ég er að reyna að skilja af hverju þetta er gert svona.

Jú, hæstv. fjármálaráðherra upplýsti það og sjálfsagt getur hv. þingmaður, sem áhrifamaður í þessum efnum, staðfest að Seðlabankinn sé sæmilega sáttur við þessa tölu. Gott og vel, (Forseti hringir.) það er mikilvægt. En eftir stendur að ég held að við þurfum öll að skilja og skýra og treysta okkur þá til að verja og útskýra þessa aðgerð út á við.