144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[16:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé að það verður gaman þegar við förum að fjalla um þetta í efnahags- og viðskiptanefnd. Við tökum okkur kannski smátíma í að fara í söguna. Út af fyrir sig getur það vel verið að að einhverju leyti sé þetta arfur frá því að menn voru með gullmyntfótinn og þess vegna arfur frá enn eldri tíma þegar seðlar voru í eðli sínu bara kvittanir. Þannig urðu seðlar til, ekki satt, hv. þingmaður? Seðlar voru kvittanir fyrir verðmæti sem menn höfðu lagt inn í bankann til geymslu, gull eða hvað það var. Menn fengu kvittun, staðfestingu á því að þeir ættu inni í bankanum þessi verðmæti. Og þá var auðvitað eðlilegt að líta á seðilinn sem skuld.

Varðandi vaxtauppgjörsmálin, sem hefur líka dálítið borið á góma að undanförnu, þá hneigist ég til að halda að þetta sé kannski ekki alveg jafnrakið og einfalt og hv. þm. Frosti Sigurjónsson virðist telja, að Seðlabankinn sé einfaldlega að láta hlunnfara sig þarna og moka peningum út í bankana að ástæðulausu. Ég held að þeir hafi nú svolítið vit á því sem þeir eru að gera þarna í Seðlabankanum, en ég er alveg sammála því að þetta er eitthvað sem ástæða er til að skoða.