144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[16:46]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir frómar óskir hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um að þeir hafi vonandi eitthvert vit á því sem þeir eru að gera í Seðlabankanum. Ég vona sömuleiðis að ríkisstjórnin beri eitthvert skyn á það sem hún er að gera. Allar ríkisstjórnir leggja sig fram um að skila fjárlögum sem eru heillavænleg fyrir sína þjóð. Ég óska hæstv. fjármálaráðherra sannarlega góðs í viðleitni sinni til að skila þokkalegum fjárlögum.

Það kom mér ekkert mikið á óvart við fjárlagafrumvarpið þegar það kom fram nema hvað mér fannst afgangur lítill. Nú hefur hann eiginlega tífaldast í meðferðinni síðan. Mér sýnist á því sem fram hefur komið að það séu meira og minna léttar bókhaldsæfingar.

Hv. þingmaður gerði það að nokkru umtalsefni og í reynd dró hann fram þá sérkennilegu þverstæðu að menn eru að lækka eigið fé Seðlabankans og nota þá lækkun sem tekjufærslu hjá ríkissjóði til að lækka skuld sem sami ríkissjóður hefur stofnað til til að hækka þetta sama eigið fé.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, af því hann hefur meira vit á þessu en langflestir í þessum sal: Er þetta bara bókhaldstrix til þess að auka afgang á fjárlögunum?