144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[16:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef maður vildi taka áróðurslegan vinkil á þetta væri mjög einfalt að segja að þetta séu dálítið skrýtnar bókhaldsæfingar. Ég held að ef menn hugsa um hringferil peninganna eins og hv. þm. Pétur Blöndal talar stundum um, þótt í svolítið öðru samhengi sé, komi þetta nokkuð sérkennilega út; að á einhvern hátt myndist grunnur til eiginlegrar tekjufærslu, að til verði einhver gróði, þegar ríkið tekur fé út úr stofnun sem það á með annarri hendinni, færir það í gegnum bókhaldið hjá sér og réttir það út með hinni til þess að lækka skuld, reyndar við þann sama aðila.

Það er hins vegar ekki hægt að ýta því til hliðar að ef við lítum samt sem áður á þetta sem raunverulegt eigið fé í Seðlabankanum sem ríkið eigi, gefur það auðvitað tilefni til færslu ef féð er lækkað og eigandinn tekur það til sín. Vandamálið er að ríkið hefur fært eign sína í Seðlabankanum á lægra gengi en sem nemur bókfærðu eigin fé í Seðlabankanum í ársreikningum hans. Þess vegna er enginn grunnur til tekjufærslu nema niður að þeim mörkum. Það er það sem hæstv. fjármálaráðherra upplýsir að leiði til þess að áður áformuð 26 milljarða tekjufærsla geti ekki orðið nema 21 milljarður. Til að það sé hægt þarf Seðlabankinn væntanlega að gera upp með á að giska 8–10 milljarða afgangi í ár því annars væru ekki innstæður fyrir þó þeirri tekjufærslu. Þetta er því nokkuð flókið.

Ég held að það væri mjög auðvelt að fá almenning til þess að trúa því yfir línuna að þetta væri hrein bókhaldsbrella, (Forseti hringir.) en það er aðeins ódýrt að segja það. Þess vegna hef ég verið að reyna að lýsa inn í raunverulegar forsendur málsins og vil skilja þetta og vonandi tekst það.