144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[16:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands. Það hefur komið ágætlega fram í fyrri ræðum út á hvað málið gengur. Frumvarpið fer síðan í efnahags- og viðskiptanefnd og þar verður væntanlega farið vandlega yfir það.

Ég hef áhyggjur af því að þetta muni líta illa út út á við. Nú má vera að tæknilega standi þetta allt saman vel og það sé hægt að rökstyðja að svigrúm sé til þess að færa niður eigið fé Seðlabankans, en það þarf að ríkja um það traust og trúverðugleiki, bæði inn á við og út á við. Það verður þá að útskýra það vandlega og það stendur upp á hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og seðlabankastjóra að sannfæra matsfyrirtæki og aðra um að það sé ekki út af veikri stöðu heldur þvert á móti út af sterkri stöðu sem þetta er mögulegt. En þarna er ákveðin hætta á ferð.

Önnur hætta er að bankinn greiðir allan hagnað til ríkisins nema það sem hann telur að mati hans sjálfs að sé nauðsynlegt eigið fé. Bankaráðið þarf að leggja blessun sína yfir það og fjármála- og efnahagsráðherra má gera athugasemdir. Það má samt spyrja, og ég vona að hv. nefnd ræði það, hvort það geti verið núningur á milli Seðlabankans og stjórnmálamanna eða þeirra sem eru valdir í bankaráð af stjórnmálaflokkunum og hvort sá núningur muni veikja stöðu Seðlabankans og þar af leiðandi nái breytingarnar ekki markmiðum sínum. Þetta eru tvær spurningar sem ég legg hér fram um frumvarpið og ég vona að hv. formaður nefndarinnar, hv. þm. Frosti Sigurjónsson, muni bera þessar spurningar fram í nefndinni.

Ég lýsi yfir miklum áhyggjum af því að hér sé verið að ræða breytingar sem varða Seðlabankann sem eiga að styrkja stöðu hans og efla sjálfstæði hans, en það þarf að ljúka umfjölluninni og græja og gera áður en samþykkt verður fjáraukalagafrumvarp. Fjáraukalagafrumvarpið verður að samþykkjast fyrir áramót þannig að það gefst ekki mikill tíma til þess að ræða faglega um frumvarpið. Ég hef miklar áhyggjur af því.

Ég skil tengslin vegna þess að í fjárlögum 2014 var gert ráð fyrir að skuldabréf á milli ríkisins og Seðlabankans, sem var verðtryggt með vöxtum upp á 2,5%, yrði vaxtalaust. 10 milljarðar voru allt í einu komnir í plús hjá ríkissjóði við þessa breytingu. Það var gert ráð fyrir þessu í fjárlögum 2014. Seðlabankinn féllst hins vegar ekki á að þessi breyting gæti gengið upp enda hefur bankinn til dæmis nýtt sér vexti af skuldabréfinu til rekstrar. Það var ekki gott fyrir bankann að þetta dytti út enda tókust ekki samningar um það. Að lokum tókust samningar um það í mars að skuldabréfið yrði til að byrja með með 5% vöxtum, sem núna eru 4,75% af því að þeir eru breytilegir, og ef frumvarpið sem við erum að ræða hér yrði að lögum yrði um leið svigrúm til að lækka skuldabyrðina um 26 milljarða. Þessir 26 miljarðar færu bara inn og út, þ.e. þeir færu í að lækka skuldabréfið.

Þegar Ríkisendurskoðun kom á fund hv. fjárlaganefndar til þess að fara yfir málið var bent á að ef frumvarpið yrði að lögum myndaðist þetta svigrúm og þá væri þetta mögulegt, en það yrði að taka tillit til þess að færa þyrfti niður eignarhlut ríkissjóðs í Seðlabankanum um 13,5 milljarða kr. samhliða arðgreiðslu af þessu tagi og gjaldfæra þá fjárhæð í ríkisreikningi. Ekki virðist hafa verið tekið tillit til þess þegar fjáraukalagafrumvarpið var samið, það kemur alla vega hvergi fram og nefndarmenn í fjárlaganefnd höfðu ekki áttað sig á þessu. Svo koma breytingar á fjáraukalagafrumvarpinu viku seinna og þá er búið að færa þessa 26 milljarða niður í 21, búið að taka tillit til 13,5 milljarða sem þarf að gjaldfæra, en á móti er kominn hagnaður upp á 8 milljarða sem er áætlaður hagnaður Seðlabankans á árinu 2014. 13 mínus 8 eru 5 og þannig eru 26 milljarðarnir komnir niður í 21 milljarð.

Fjáraukalagafrumvarpið og um leið fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015 stendur og fellur með því að Alþingi klári að vinna frumvarp um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands og það verði allt klappað og klárt fyrir jól. Ég hef áhyggjur af vinnubrögðunum við frumvarpið um Seðlabankann, að menn fái ekki nægilegan tíma í nefndarvinnu til að fara faglega ofan í málin. Það kastar rýrð á allt ferlið að þetta skuli hanga svona saman. En ef þetta yrði ekki gert svona þá væru ríkisfjármálin auðvitað í uppnámi vegna þess að einhvers staðar þarf að taka 10 milljarðana sem var búið að gera ráð fyrir að mundu koma í ríkissjóð eða flytjast eignamegin í ríkissjóð út af því að skuldabréfið yrði vaxtalaust.

Ef maður horfir raunsætt á málin þá er þarna vandi. Það þarf einhvern veginn að skila árinu 2014 hallalausu og þess vegna verður að grípa til þessara ráðstafana af því að það er ekki hægt með öðrum hætti eða menn vilja nota peningana til þess að flýta greiðslum í skuldaniðurgreiðslupakkann. Þess vegna verður að gera þetta. Þess vegna verður að láta þetta hanga saman og af því hef ég áhyggjur. Það er algjörlega ófyrirséð að það náist að klára seðlabankafrumvarpið fyrir áramót og um leið er fjáraukalagafrumvarpið í uppnámi.