144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[17:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er gaman að heyra hv. þm. Pétur Blöndal tala hér eins og hann hafi aldrei haft nein áhrif á peningastefnu ríkisins eða yfir höfuð stefnu ríkisins. Hann hefur samt verið helsti gúrú Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum ákaflega lengi.

Í fyrri parti ræðu sinnar ræddi þingmaðurinn töluvert um peningamálastefnu. Nú stendur fyrir dyrum, ef guð lofar, vonandi í samstarfi allra þingmanna, að aflétta gjaldeyrishöftum. Við skulum segja að það takist vel. Er þá ekki líklegt, miðað við það hvernig hagvísar benda hér innan lands í samanburði við það sem gerist erlendis, að við stöndum bara frammi fyrir því að inn til landsins fljóti aftur mikið fjármagn? Það mun sytra með einhverjum hætti eins og við þekkjum út í efnahagslífið og þá mun Seðlabankinn aftur þurfa að grípa til þess að hækka vexti sína. Erum við þá ekki aftur komin í þá stöðu að þarfir erlendra fjármagnseigenda ráði vaxtastýringu Seðlabankans miklu frekar en þarfir atvinnulífsins?

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, af því að ég tel hann einna vísastan þingmanna stjórnarliðsins, jafnvel þó að allir séu með teknir, jafnvel hv. þm. Frosti Sigurjónsson: Hvers konar peningamálastefnu vill hann taka upp til að stemma stigu við og koma í veg fyrir það að þetta gerist?