144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[17:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög mikilvæg spurning og þetta er það sem menn þurfa að huga að. Þetta er vandinn við að leysa gjaldeyrishöftin og leysa upp og kveikja í kannski 400, 500, 600 milljörðum af krónum sem er ofaukið í þjóðfélaginu. Hvað gerist þá? Hættan er sú að krónur vanti í hagkerfið ef illa tekst til. Það keyrir upp verðbólgu, hækkar vexti og annað slíkt þannig að það er virkilega vandasamt að finna út hvernig við náum að fóta okkur í jafnvægi. Við erum búin að fara í flikkflakk og komin niður og þá er, eins og þekkt er í fimleikum, mikilvægt að standa í lappirnar. Þetta tel ég einmitt eitt mesta viðfangsefni þess að aflétta höftunum, að halda jafnvægi milli innflæðis og útflæðis fjármagns, milli neyslu og sparnaðar o.s.frv.

Ég hygg að ríkisstjórnin þurfi að taka sér tak í að bæta stöðu sparifjáreigenda því að ef fólk eyðir hluta af tekjunum sínum í sparnað er það mjög jákvætt. Það þarf hvata til að spara, það minnkar neyslu í vörum, kemur í veg fyrir verðbólgu, kemur í veg fyrir mikinn innflutning á vörum og eykur auk þess nauðsynlega fjárfestingu. Vandinn við það að fá hingað erlent fjármagn — það hefur svo sem ekki verið mikið vandamál eftir hrun. Í því efni þarf að byggja upp ákveðið traust og ég á ekki von á því að útlendingar komi allt í einu daginn eftir að við leysum gjaldeyrishöftin og vilji fjárfesta hérna eða koma hingað með peninga. Það gæti vissulega valdið vanda og þá þyrfti Seðlabankinn hugsanlega að hækka stýrivexti en ég sé það ekki endilega sem vanda fyrsta kastið.