144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[17:19]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, eiginfjármarkmið og ráðstöfun hagnaðar hans. Við munum í efnahags- og viðskiptanefnd skoða efni frumvarpsins mjög gaumgæfilega og velta fyrir okkur öllum flötum þess. Það sem við fyrstu sýn blasir við er sú framför að mínu mati að í staðinn fyrir að ákveða eigið fé og meta eiginfjárþörf bankans út frá því að horfa aftur á bak, út frá fyrri árum, er hér opnað á þann möguleika í samráði við stjórnendur Seðlabankans að meta eiginfjárþörf horfandi fram á við, út frá því hvað blasi við. Ég held að það sé mjög til bóta og framför í því.

Varðandi það hvort sú lækkun á eigin fé um 26 milljarða sem þarna er innifalin ógni stöðugleika Seðlabankans eða efnahagslegum styrk þá held ég ekki að sú hætta blasi við. Ef við skoðum eigið fé Seðlabankans er það um 90 milljarðar. Það er náttúrlega mismunur á eignum og skuldum, eignir eru 1.002 milljarðar, skuldir eru 912 milljarðar. Meðal eignanna er eignasafn Seðlabanka Íslands sem er líklega í kringum 200 milljarðar og stendur til að selja það. Það er væntanlega varlega metið í bókum Seðlabankans á 200 milljarða. Verði það selt, sem blasir við í framtíðarplönum Seðlabankans, mun efnahagurinn dragast saman um 200 milljarða, þ.e. í staðinn fyrir að eigið féð sé 90 milljarðar af 1 þús. milljörðum er það orðið 90 milljarðar af 800 milljörðum. Þá er eiginfjárstaðan þeim mun sterkari, ég tala nú ekki um ef við bætum seðlamagninu við sem er um 47 milljarðar af óvaxtaberandi seðlum.

Á bls. 6 í athugasemdum með frumvarpinu er ákaflega athyglisverð mynd þar sem sýnt er eigið fé seðlabanka í mörgum ríkjum, sem hlutfall af efnahag. Ef þið skoðið t.d. Síle er neikvætt eigið fé seðlabankans þar um 20% en hlutfall seðla er hins vegar 30%. Ísrael er með neikvætt eigið fé um hátt í 10%. Ísland er með jákvætt eigið fé og seðla, ef lagt er saman, upp á 13,4% í lok árs 2013. Ef litið er bara á eigið fé má sjá að hlutfallið er svipað á Íslandi og í Danmörku, Singapúr, Finnlandi, Nýja-Sjálandi og Ástralíu og miklu meira en í Kanada. Mér sýnist Kanada vera bara með í kringum 2% eigið fé í sínum seðlabanka. Ekki er talað um annað en að Kanadabanki sé einn sá traustasti í heimi. Þar er að vísu mjög mikið af seðlum, 82% af efnahag bankans eru seðlar.

Þetta er mjög áhugaverð mynd sem sýnir okkur að í lok síðasta árs var eigið fé Seðlabanka Íslands með því mesta sem þekkist, eða alla vega í hópi þeirra ríkja sem við berum okkur gjarnan saman við. Það mun hækka samkvæmt einföldum útreikningi upp í um það bil 17% bara við það að eignarhaldsfélag Seðlabankans verði selt. Þá geri ég ráð fyrir að félagið verði selt á bókfærðu virði, en það eru áreiðanlega miklar varúðarfærslur í bókfærðu mati þannig að virðið verður eflaust miklu hærra. Þá verður eiginfjárstyrkurinn mikill. Ég held að það sé á grundvelli slíkrar skoðunar að samkomulag hefur orðið á milli ráðuneytisins og Seðlabankans um að óhætt sé og meira en það að greiða út 26 milljarða eins og lagt er til í frumvarpinu. En að sjálfsögðu munum við í nefndinni skoða það allt mjög vandlega.

Ég vil líka aðeins koma inn á bókhaldsaðferðafræði í kringum mat á eigin fé Seðlabanka. Það er að mínu mati ákaflega undarlegt að telja til skulda seðla í umferð. Þeir eru núna 47 milljarðar og eru taldir meðal skulda Seðlabankans. Hins vegar hafa þeir engan gjalddaga, bera enga vexti og eru í rauninni bara hugbúnaður, af því ég sé núna hv. hugbúnaðarsérfræðing meðal þingmanna í salnum. Þegar hugbúnaðarfyrirtæki selja hugbúnað færa þau það ekki sem skuld, jafnvel þótt hægt sé að skila hugbúnaðinum og fá annan betri í staðinn, með færri galla. Það væri talin tilraun til að svíkja undan skatti að sýna ekki fram á þann hagnað sem verður til á þeirri stundu sem hugbúnaðurinn er seldur.

Þetta fyrirkomulag í seðlabönkum heimsins rekur sögu sína til gullfótarins þegar að baki hverjum seðli sem var í umferð fram til ársins 1970 var prósenta í gulli. Menn gátu komið með seðilinn og sagt: Ég vil fá eðalmálminn eða jafnvel silfurskildinginn sem gefinn út er af ríkissjóði.

Í sumum bönkum er nauðsynlegt að færa seðla sem skuld vegna þess að ekki eru allir seðlabankar ríkisreknir. Til dæmis er Seðlabanki Bandaríkjanna, The Federal Reserve, í eigu stærstu bankanna í Bandaríkjunum. Hann hefur ekki leyfi til að gefa út mynt. Hann getur bara gefið út seðla og grunnfé, hann getur ekki gefið út mynt. Hann getur þurft að mæta því að einhver komi í seðlabankann og segi: Ég vil skila þessum seðli og fá mynt í staðinn. Þess vegna þarf hann að færa seðlana sem skuld í sínu bókhaldi. En við getum ekki tekið upp blákalt þær bókhaldsaðferðir frá einkareknum seðlabanka sem hefur ekki leyfi til að búa til mynt, eins og okkar seðlabanki hefur sem er ríkiseign, og hefur ekki endanlegt peningamyndunarvald í Bandaríkjunum, það liggur enn þá hjá, með leyfi forseta, the Treasury, ef ég nota það enska orð. Við þurfum því að ræða við endurskoðendur Seðlabankans um það hvort þeir telji að eðlilegt sé að færa til aukningar á skuldum þegar Seðlabankinn gefur út fleiri seðla.

Frá hruni hefur áhugi fólks á því að eiga seðla aukist. Magn seðla í umferð fram að hruni var um 11 milljarðar. Seðlamagn sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hafði verið nokkuð stöðugt og með því minnsta sem gerðist milli þjóða. En eftir hrun jókst áhugi fólks á því að eiga einhvern varasjóð undir koddanum, að því er virtist. Seðlamagn í umferð hefur fjórfaldast frá hruni og er nú komið í 47 milljarða í þessum töluðum orðum, en var 11 milljarðar. Þegar Seðlabankinn setti þessa 35 eða 36 milljarða til viðbótar í umferð færði hann það allt sem aukningu á skuldum sínum. Samt keypti hann sjálfur þessa seðla af prentsmiðjunni á segjum 10 kr. hvern tíuþúsundkall og hafði alveg ótrúlegan hagnað af aðgerðinni. Öllum þeim hagnaði er leynt fyrir okkur sem skoðum ársreikninga Seðlabankans. Við fáum ekki að sjá hann í allri sinni dýrð, heldur er honum lýst sem aukinni skuld. Það held ég að sé algerlega rangt og villandi og mjög alvarleg staða.

Sú staða getur líka leitt til mjög mikilla vandamála. Komi til dæmis í ljós að Seðlabankinn sé með 30 milljarða hagnað úr peningaprentun mundum við vilja ræða í þinginu hvort það sé eðlilegt Seðlabankinn hafi sjálfdæmi um hvað hann geri við þá 30 milljarða. Á hann að bregða á það ráð að greiða bönkum hærri vexti, t.d. á bindiskyldureikninga, eða eitthvað annað? Eða ber honum að greiða arð í ríkissjóð? Verðmæti þessara seðla er það sem það er vegna laganna í landinu og vegna þess að útgáfa þeirra eykur peningamagn í umferð, veldur hugsanlega verðbólgu og verðrýrnun annarra seðla. Allar þessar spurningar koma upp. Það er ekki sjálfgefið að bankarnir eigi tilkall til þeirra verðmæta sem þarna verða til.

Það sem hefur hins vegar gerst á tímabilinu frá hruni er að Seðlabankinn hefur greitt háa vexti í viðskiptum sínum við bankana. Mjög mikil lausafjárstaða hefur verið í bankakerfinu og bankarnir hafa verið með á bilinu 150–200 milljarða í Seðlabankanum á vöxtum frá hruni, núna síðast hátt í 200 milljarða. Seðlabankinn hefur boðið 5% vexti á allan stabbann, en hins vegar hefur enginn banki þurft á lánafyrirgreiðslu að halda hjá Seðlabankanum. Þetta er mjög óvenjulegt ástand og var ekki svona fyrir hrun og er mjög óvíða þannig í heiminum. Venjulegur seðlabanki hefur náttúrlega bæði vaxtatekjur og vaxtagjöld af viðskiptum sínum við viðskiptabanka. Hann er með hærri vexti á lánum sínum til viðskiptabankanna en hann greiðir þeim þegar þeir eru með innstæður í honum. Þess vegna fjármagna seðlabankar sig á örlitlum vaxtamun, auk seðlaprentunar.

Hér á Íslandi hefur staðan verið sú frá hruni að Seðlabankinn hefur leyft bönkum að ávaxta hjá sér á 5% vöxtum 200 milljarða. Kostnaðurinn af því hefur verið hátt í 10 milljarðar á hverju ári og það án nokkurrar umræðu í þinginu og án þess að það komi skýrt fram í reikningum. Vegna þess að hagnaðurinn af seðlaprentuninni kemur ekki fram í reikningum er erfitt að koma auga á þetta. Það er bara við nánari eftirgrennslan sem menn fara að taka eftir þessum hlutum. Í eitt og hálft ár hef ég bent Seðlabankanum á að þeir þurfi ekki að greiða svona háa vexti. Samkvæmt lögum má bankinn binda fé. Telji hann til dæmis vera of mikið af lausu fé í kerfinu hefur hann bindiskyldutækið, hann getur lagt bindiskyldukvöð á bankana, t.d. upp á 100 milljarða og greitt 0% vexti á þá peninga. Í staðinn fyrir að gera það hefur hann boðið bönkunum algjörlega áhættulausa ávöxtun upp á 5% allan tímann. Það á í raun enginn tilkall til þess að fá vexti fyrir algerlega áhættulausa ávöxtun. Raunvextir eru vel yfir 3% vegna þess að verðbólga hér hefur verið innan við 2% á tímabilinu. Það er ávöxtun fjármuna hjá Seðlabankanum þegar hann sjálfur hefur engar tekjur, engar fjárfestingar til þess að leggja féð í, kemur bara úr ríkissjóði með óbeinum hætti, kemur bara niður á möguleikum hans til að greiða arð inn í ríkissjóð. Þess vegna er þetta mjög alvarlegt.

Það er líka alvarlegt að þótt búið sé að benda á þetta trekk í trekk sé ekki tekið tillit til þess. Auðvitað er Seðlabankinn sjálfstæður í gerðum sínum, en hann er ekki hafinn yfir gagnrýni og ætti að taka ábendingum þegar svona mikið er í húfi. Ég hef ekki enn þá heyrt góð og skýr rök fyrir því hvers vegna megi ekki binda 100 milljarða af þessum 200 á 0% bindiskyldureikningum. Það er gert víða um heim. Bindiskylda hefur verið notuð áratugum saman víða um heim og mjög víða eru engir vextir greiddir á bindiskyldureikninga og hefur verið þannig lengi.

Bindiskylda hefði hugsanlega getað dregið úr tapi Seðlabankans um 5 milljarða á ári. Núna reiknast mér til að tap Seðlabankans af viðskiptum hans við bankana sé um 800 milljónir á hverjum mánuði. Allur launakostnaður Seðlabankans er í kringum 2 milljarðar á ári. Þannig að á tveimur, þremur mánuðum er hann búinn að greiða bönkunum í vexti jafn mikið og allan launakostnað Seðlabankans. Þetta er mjög alvarleg staða. Með sama áframhaldi mun að sjálfsögðu ganga á eigið fé Seðlabankans. Þess vegna meðal annars vil ég vara við þessu. Það kemur að vísu á móti að bankinn er með 47 milljarða af seðlum útistandandi sem ekki þarf að greiða vexti af, á eignir á móti sem eru væntanlega 47 milljarðar og bera einhverja vexti. Segjum að bankinn fái líka 5% vexti á sínar eignir sem hann hefur keypt fyrir þessa seðla. Þá fær hann á hverju ári í kringum 2,5 milljarða í vexti af þeim eignasöfnum sem hann fjármagnar á 0% með seðlum. Það er mikilvægt að átta sig á að þetta er mjög mikilvæg tekjulind fyrir Seðlabankann og er endurtekin, kemur ár eftir ár.

Ef það er verðbólga á Íslandi upp á 5% fær bankinn líka 2,5% tekjur út af því, vegna þess að auka þarf seðlamagnið í umferð um 5% að öðru óbreyttu og svo koll af kolli, þannig að Seðlabanki er fyrirtæki sem ætti aldrei að tapa peningum. Seðlabanki getur búið til peninga. Það er svolítið sérkennilegt að vera að ræða hér hversu mikið eigið fé hann eigi að hafa þegar þetta er sú stofnun í landinu sem getur í rauninni skapað peninga að vild og hefur til þess okkar umboð. Það er því með ólíkindum að á síðasta ári tókst þessari stofnun að vera rekin með 8 milljarða kr. tapi. Hér hef ég rakið hvernig það hefur gerst. Bankinn hefur tapað á gengismun og hefur tapað á því að greiða bönkum allt of háa vexti. Því er hægt að breyta.

Ég veit ekki hvort ég á að fara mjög djúpt í þetta en ég vil ítreka að það eru ekki sérstaklega skýrar kenningar um það hversu mikið eigið fé seðlabankar þurfi að hafa, eins og kemur fram í athugasemdum við frumvarpið og þar má líka sjá að eigið fé getur verið allt frá því að vera verulega neikvætt upp í að vera örlítið, eins og t.d. í Kanada þar sem það er 2%. Það má kannski færa rök fyrir því að seðlar í umferð séu hlutafé í Seðlabankanum sem þeir eiga sem halda á þeim seðlum, en þeir fá að vísu aldrei neinn arð á þá.

Það sem við í nefndinni þurfum að gera er að ganga úr skugga um að svigrúm sé fyrir hendi til að færa til 26 milljarða. Ég held að sé til bóta að í þessum ákvörðunum um arðgreiðslur og eiginfjársamskipti við ríkissjóð sé horft til framtíðar en ekki bara aftur fyrir sig og held að það sé miklu gæfulegra en hitt. (Forseti hringir.) En þetta munum við að sjálfsögðu skoða vel í nefndinni.