144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[17:42]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að taka þátt í þessari umræðu um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands og ræða það svolítið út frá því sem kemur við okkur í fjárlaganefnd og velta upp spurningum sem þar komu fram. Það er jú fjáraukalagafrumvarpið sem við tökum til 2. umr. á morgun og byggir á því að þetta frumvarp nái fram að ganga. Ég sagði þegar minni hlutinn bókaði mótmæli gegn því að það frumvarp væri tekið út að það væri óeðlilegt í ljósi þess að stór hluti þeirrar fjárhæðar sem þar um ræðir byggist á því að frumvarp sem þá var ekki komið fram yrði samþykkt og skildi ekki þennan asa og skil reyndar ekki enn, því það er kúnstugt að fara að ræða á morgun um fjáraukalagafrumvarp þegar ekki liggur fyrir hvort þetta frumvarp fer óbreytt í gegn.

Það er líka vert að vekja athygli á því að minni hlutinn í fjárlaganefnd óskaði eftir því að fá Seðlabankann á fund ásamt Ríkisendurskoðun og ráðuneytinu til að fara yfir þennan gjörning af því okkur fannst skýringar ráðuneytisins upphaflega vera mjög litlar og engan veginn fullnægjandi. Ég held að það sé alveg ljóst að fundurinn í morgun var töluvert upplýsandi, og þá ekki bara fyrir okkur sem óskuðum eftir honum heldur líka fyrir meiri hlutann því það var ekki einungis að við skildum kannski ekki til fullnustu það sem hér er verið að gera, heldur virtist vera einhver misskilningur á milli ráðuneytis og Ríkisendurskoðunar sem þar kom fram. Ég held því að sá fundur hafi verið afar þarfur.

Við vitnuðum til þess minnisblaðs sem Ríkisendurskoðun hafði gert við fjáraukalagafrumvarpið og varðaði eigið fé Seðlabankans og arðgreiðslu og hvernig með hana skyldi fara. Ég held að það sé ljóst og Ríkisendurskoðun dró það ekki til baka að þeir teldu að breyta þyrfti framsetningunni miðað við frumvarpið. Þeir tóku ekki afstöðu í rauninni til þeirra breytinga sem hafa komið fram en hafa ekki verið sendar þeim til umsagnar. Það þýddi eins og hér hefur komið fram að eigið fé bankans ef 26 milljarðar verða teknir út fer niður í 64 milljarða. Töldu þeir og telja að þá væri eignarhluti ríkissjóð oftalinn í ríkisreikningi um 13,5 milljarða, og ekki var gert ráð fyrir því í gjaldfærslu í fjáraukanum sjálfum en það var svo skýrt betur í morgun.

Einnig er vert að vekja athygli á því og það var staðfest í morgun af því að sú umræða fór aðeins fram hér í dag varðandi það hvort opinn tékki væri til ríkisins vegna Seðlabankans upp á heimild upp á 52 milljarða sem ríkið skuldbindur sig til að ábyrgjast með breytingum á lögum um bankann, að Ríkisendurskoðun og Seðlabankinn tóku undir það að svoleiðis væri það, og að þá þyrfti það að koma fram í ríkisreikningi með einhverjum hætti, að þetta væri þessi opni tékki.

Þrátt fyrir að hér sé talað um að ríkið eigi að fá allan arð af Seðlabankanum, ef þetta frumvarp verður að lögum, þá er líka vert að nefna að í sjálfu sér fer það eingöngu til lækkunar á þessum eignarhluta. Samningurinn eða samkomulagið á þessu bréfi er með þeim hætti að arðurinn verður nýttur til niðurgreiðslu á skuldabréfinu og eign ríkisins í Seðlabankanum þangað til það er að fullu greitt. Þetta er 29 ára bréf með reglulegum afborgunum. Og ef út í það er farið er það auðvitað búið að taka töluvert miklum breytingum og sífellt er verið að breyta þeim skilmálum. Þetta er í þriðja sinn í það minnsta sem það er að koma hér inn á borð til breytinga. Gert var ráð fyrir að það yrði vaxtalaust í fjárlögunum en hins vegar á það núna að verða með 5% vöxtum. Hins vegar er ekki búið að ganga frá þessu endanlega enn þá. Það er líka enn einn óvissuþátturinn. Það er mjög sérstakt að leggja fram eitthvað eitt sem hefur áhrif á annað. Það hefur í för með sér verulega aukin vaxtagjöld ríkissjóðs, ég held að við deilum ekki um það.

Við verðum í rauninni að skoða þetta frumvarp út frá mörgum hliðum. Líka það sem kom fram hjá Ríkisendurskoðun um að áætla fyrirframgreiðslu á arðinum sem hér er gert ráð fyrir að verði a.m.k. 8 milljarðar. Það er mjög sérstakt vegna þess að alla jafna er jú arður ekki gerður upp fyrr en niðurstöður efnahagsreiknings liggja fyrir og það gerist ekki fyrr en kannski í febrúar. Það eru eiginlega ekki ásættanleg svör að segja að hægt sé að fara með þetta eins og hvern annan áætlaðan tekjuskatt eða annan skatt inn í áætlunargerð ríkisins. Þetta byggir á níu mánaða uppgjöri skilst okkur á Seðlabankanum, bráðabirgðauppgjörinu til níu mánaða, og gert er ráð fyrir að þetta verði talan.

Síðan greindi menn á um með hvaða hætti ætti að bóka þetta í reikningum ríkissjóðs. Það verður áhugavert að sjá hvernig efnahags- og viðskiptanefnd tekur á þessu máli, ekki bara fjárlaganefnd, því að það skiptir gríðarlega miklu máli hvernig þetta fer inn í ríkisbókhaldið.

Það er líka varhugavert að gera ráð fyrir arði sem er alls ekki ljóst að verði svona mikill. Það er í rauninni verið að greiða hagnaðinn af árinu 2013 núna á þessu ári og þessa 8 milljarða, allt fyrst og fremst, held ég, til þess að laga ríkisbókhaldið.

Menn eru því að draga hér fram stöðu sem er kannski ekki alveg sú staða sem manni finnst eðlilegt að sé dregin fram, bæði þessi lækkun á bréfinu og svo eru þessar tölur á reiki. Hér kom fram að þetta ætti að vera 21 milljarður þrátt fyrir að frumvarpið byggi á 26 milljörðum. Fjáraukalagafrumvarpið byggir líka á 26, en samt segir ráðherra að það eigi að verða 21 milljarður. Það er auðvitað mjög óþægilegt að eiga að taka afstöðu til þeirra talna. Það munar um 5 milljarða til eða frá, það er ekki skiptimynt. Við gætum nýtt þá mjög víða.

Af því að ég heyrði aðeins undan og ofan af því sem hér var rætt áðan varðandi aðra erlenda seðlabanka og eigið fé þeirra, hvort þeir þurfi að sækja til ríkissjóðs sinna landa ef þeir lenda í vanda, eða hvort það sé sams konar umhverfi hvað það varðar eins og hér er verið að gera, þ.e. opinn tékki sé hjá öllum ríkjum er varðar eigið fé banka. Ég spurði eftir því hjá Seðlabankanum hvað hann teldi er varðaði markaðinn út á við og lánsfjárhæfi. Þeir töldu sig nú ekki hafa beinar áhyggjur af því og telja sig geta útskýrt það fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, OECD eða hverjum sem er. En þegar maður horfir til þess hvað í rauninni það ætti að vera miðað við þær reglur sem eru í gildi núna þá held ég að þetta sé komið ansi neðarlega.

Herra forseti. Ég ætla svo sem ekki að hafa þetta lengra. Ég vildi bara koma og gera aðeins grein fyrir þeim hugleiðingum sem vöknuðu hjá okkur í fjárlaganefnd um málið og þá hugmynd um að eigið fé Seðlabankans væri í rauninni lægra skráð í ríkisreikningi en hjá Seðlabankanum sjálfum. Okkur þykir það kyndugt. Það var nú einn þátturinn í því að fá þá aðila á fund. Það er svolítill ágreiningur uppi um hvernig beri að fara með þetta, en það verður væntanlega búið að leysa það áður en málið verður afgreitt.