144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

almenn hegningarlög.

395. mál
[19:00]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna fer hv. 6. þm. Norðaust. inn á umræðu sem er mikilvæg en heldur tímafrek. Við þyrftum kannski meira en andsvaratíma til þess að fara yfir það allt saman.

Það er sem betur fer rétt að tjáningarfrelsi í dag þýðir ekki alveg það sama og það þýddi fyrir 20, 30 árum vegna þess að fyrir 20, 30 árum á Íslandi var það næstum því þýðingarlaust. Hæstaréttardómur nr. 16/1983 staðfesti á sínum tíma 125. gr. almennra hegningarlaga, sem ég kvartaði svo mikið undan hérna áðan, þannig að það gleður mig mjög mikið að almenn viðhorf til tjáningarfrelsis hafi styrkst, enda hafa þau verið í mikilli óreiðu á Íslandi frá upphafi, eftir því sem ég fæ best séð. Hér á Íslandi virðast menn af einhverjum ástæðum alltaf hafa haft meiri áhyggjur af æru sinni en tjáningarfrelsi. Ég veit ekki hvað býr að baki því.

Hv. þingmaður spyr mig út í ónafngreind „komment“ eða skilaboð á netinu. Ja, ég get sagt alla vega í stuttu máli sagt hvernig við bregðumst ekki við því. Við bregðumst ekki við því með fangelsisrefsingum. Við bregðumst ekki við því með almennum hegningarlögum nema upp að því marki sem lögmætar skorður á tjáningarfrelsi segja til um, og þá auðvitað bara með lögreglurannsókn ef málið er þannig vaxið. Nafnleysi er vissulega einn af óhjákvæmilegum fylgifiskum internetsins sem betur fer og ég lít bara á það sem réttindi, kannski ekki endilega sem hluta af tjáningarfrelsi en vissulega sem hluta af réttindum, já, að koma ekki fram undir nafni. Ég skil vel að fólki líki það illa, það verður bara að hafa það, en það er mikilvægt fyrir fólk að geta tjáð sig án þess að þurfa endilega að líða fyrir það. Ef tjáningin er þess eðlis að hún brjóti beinlínis í bága við stjórnarskrárvarin réttindi annars, svo sem friðhelgi einkalífsins eða réttinn til öryggis ef um morðhótanir eða álíka er að ræða, (Forseti hringir.) á að eiga sér stað lögreglurannsókn þar sem farið er í saumana á því hvort og hvernig hægt sé að rekja þá tjáningu og draga þann til ábyrgðar sem ábyrgur er fyrir því.