144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

almenn hegningarlög.

395. mál
[19:04]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þyrfti að leita mér einhverra heimilda ef ég ætlaði að fara að skilgreina það orð mjög nákvæmlega. Það sem ég get sagt um tjáningarfrelsið og mörk þess er að ég horfi ekki á takmarkanir tjáningarfrelsis nema þær skarist beinlínis við önnur réttindi einstaklinga. Þau réttindi eru tiltölulega skýrt afmörkuð. Maður hefur til dæmis rétt til öryggis. Maður hefur rétt á því að sitja ekki undir morðhótunum eða hótunum um ofbeldi eða eitthvað álíka, maður hefur rétt til friðhelgi einkalífsins, sem þýðir að það er ekki lögmæt tjáning að opinbera dagbók einhvers eða, eins og er því miður allt of algengt núna, að sýna nektarmyndir af einhverjum öðrum. Maður hefur ýmis réttindi til eigna og því um líkt. Spurningin sem við eigum að spyrja okkur þegar við veltum fyrir okkur takmörkunum á tjáningarfrelsi er: Brýtur tjáningin í bága við mannréttindi einhvers annars? Það er rétta spurningin. Rétta spurningin er ekki hvar einhver mörk eru. Ég veit ekki hvar einhver mörk eru. Fólk er alltaf að tala um einhverja línu, að maður gangi yfir einhverja línu eða eitthvert strik. Enginn hefur getað útskýrt fyrir mér hvað það er að tala um. Ég lít ekki á það sem spurningu um hversu mikið fólk móðgar aðra eða hversu mikið er gantast, heldur hvort verknaðurinn sé farinn að brjóta í bága við réttindi annarra.

Krakkar leggja aðra krakka í einelti í skólum og fullorðið fólk leggur annað fólk í einelti, en það lítur alltaf á aðgerð sína sem einhvers konar grín. Ég þekki það af eigin reynslu. Ég var lagður í mjög alvarlegt einelti mjög lengi í grunnskóla. Það held ég ekki að eigi heima í almennum hegningarlögum, ef ég á að segja alveg eins og er. Skólar, stofnanir og vinnustaðir eiga að bregðast við því. Ég held að það séu engin skýr mörk í sjálfu sér þegar kemur að einelti en þegar kemur að réttindabrotum gagnvart öðrum sé ég skýr mörk.

Mér finnst mjög skýrt að þegar einhver dreifir nektarmyndum af öðrum í leyfisleysi þá er það brot á friðhelgi einkalífsins. Í dag er ekki tæknilega bannað að gera það, eftir því sem ég fæ best séð. Mér skilst að fólk þurfi að eltast á forsendum höfundaréttar við þann sem dreifir nektarmyndum (Forseti hringir.) ef það ætlar að bregðast við því, ekki vegna friðhelgi einkalífsins. Það sýnir kannski að við höfum ekki gefið þessu málefni nægan gaum í gegnum tíðina og þurfum að fara að íhuga betur hvernig (Forseti hringir.) við ætlum að hafa þessi mál til frambúðar.