144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

nýting eyðijarða í ríkiseigu.

126. mál
[19:07]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um nýtingu eyðijarða í ríkiseigu. Auk mín eru flutningsmenn að þessari þingsályktunartillögu Sigrún Magnúsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Pétur H. Blöndal, Ásmundur Friðriksson og Haraldur Benediktsson.

Tillagan fjallar um að Alþingi álykti að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leita allra leiða til að koma ónýttum eða ósetnum jörðum í ríkiseigu í notkun og auka með því byggðafestu og atvinnumöguleika í dreifðum byggðum landsins. Enn fremur að greiða fyrir ábúendaskiptum á ríkisjörðum í því skyni að stuðla að markvissri búsetu og uppbyggingu þessara jarða.

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt áður en lengra er haldið að ég lesi hér upp skilgreiningar á eyðijörðum annars vegar og lögbýlum hins vegar samkvæmt jarðalögum, nr. 81/2004. Með leyfi forseta:

„Eyðijörð merkir í lögum þessum jörð sem ekki hefur verið setin í fimm ár eða lengur án tillits til þess hvort hún er lögbýli eða ekki, nema sveitarstjórn og jarðeigandi hafi samþykkt að ábúanda sé ekki skylt að búa á jörð.“

„Lögbýli merkir í lögum þessum sérhverja jörð sem hefur þann húsakost og það landrými eða aðstöðu að unnt sé að stunda þar landbúnað eða aðra atvinnustarfsemi og var skráð í jarðaskrá ráðuneytisins 1. desember 2003. Lögbýli teljast enn fremur jarðir sem hljóta síðar viðurkenningu ráðuneytisins sem ný lögbýli, samanber 16.–22. gr.“

Það er mat flutningsmanna að ótækt sé að fjöldi jarða í ríkiseigu sé í eyði eða illa nýttur á sama tíma og nýliðun í landbúnaði er erfiðleikum bundin. Þá er þörf fyrir meiri matvælaframleiðslu á Íslandi, sérstaklega á mjólkurvörum og nautgripakjöti og sumar þessara jarða eru heppilegar til matvælaframleiðslu. Auk þess stækkar ört sá hópur til sveita sem sinnir þjónustu við ferðamenn og kann að vera hægt að skapa atvinnutækifæri og efla jaðarbyggðir með markvissri aðgerð sem þessari.

Ungir bændur eiga margir hverjir í erfiðleikum með að hefja búskap þar sem bújarðir liggja ekki á lausu og/eða eru ákaflega dýrar. Með því að koma jörðum í notkun mætti að nokkru leyti leysa vanda nýliðunar, auka matvælaframleiðslu, tryggja byggðafestu og bæta atvinnumöguleika. Svo að það sé sagt þá þarf að gera fleira til að auka nýliðun í landbúnaði eins og t.d. að auðvelda ungu fólki aðgang að fjármagni til fjárfestinga í landbúnaði þar sem oft er erfiðast að komast yfir þann hjalla. Það mál þarfnast sérstakrar skoðunar og er ekki partur af þessu máli.

Með því að koma ónýttum jörðum í notkun, þ.e. þeim sem mögulegt er að nýta, væri sú aðgerð mikilvæg sem hluti af stefnu núverandi ríkisstjórnar um að efla byggð og auka matvælaframleiðslu. Hún kæmi til viðbótar þeim úrræðum sem nú eru í boði, svo sem nýliðunarstyrkjum í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu og möguleikum á styrk frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins til atvinnuuppbyggingar á lögbýlum. Hún styður einnig við aðrar aðgerðir sem óhjákvæmilega þarf að ráðast í til að snúa við óheppilegri byggðaþróun í mörgum héruðum og styður við þá viðleitni að styrkja matvælaframleiðslu á Íslandi á tímum vaxandi eftirspurnar eftir mat í heiminum, en minnkandi framleiðslugetu á sama tíma.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti heldur utan um jarðeignir ríkisins. Samkvæmt upplýsingum frá Jarðeignum ríkisins á ríkið nú um 473 jarðir og hafa eyðibýli verið talin um 160, en það fer eftir hver skilgreiningin er. Talan 178 hefur líka verið nefnd í þessu samhengi. Þetta er því ekki alveg klippt og skorið. Margar eyðijarðir eru nýttar nú þegar, oft nytjaðar af bændum í nágrenninu til beitar eða slægna. Þegar fjöldi eyðibýla er reiknaður út er notast við lögbýlaskrá; þar af leiðandi eru þær jarðir taldar eyðijarðir sem eru lögbýli og ekki með formlega ábúð eða byggingabréf. Á mörgum þessara jarða eiga menn lögheimili og þetta orðalag getur því verið ansi ruglandi. Dæmi eru um að ábúendur með byggingabréf geti verið nánast hættir búskap vegna aldurs eða veikinda. Slíkar jarðir teljast þá ekki með og ekki heldur fjölmargir skógarreitir, landgræðslusvæði og aðrir skikar sem ekki eru skilgreindir sem jarðir. Húsakostur eyðijarðanna uppfyllir í mörgum tilfellum ekki þau skilyrði sem skilgreining hugtaksins lögbýli gerir ráð fyrir.

Í tölulegri samantekt minni hér á eftir eru ekki þær eyðijarðir í eigu ríkisins sem heyra undir önnur ráðuneyti. Þær eru sem sagt ekki allar undir fjármálaráðuneytinu. Sumar jarðir eru t.d. innan þjóðgarða og jarðir Landgræðslusjóðs enda gilda ef til vill önnur lögmál um slíkar jarðir. Miðstöðvar stofnana eru heldur ekki taldar með eyðijörðum eins og Hvanneyri með Kirkjutungum á Kvígsstöðum, Hólar í Hjaltadal, Gunnarsholt með Brekkum á Reyðarvatni, Mógilsá, Tumastaðir o.fl. Skilgreining og talning á eyðijörðum er alls ekki einfalt mál þegar betur er að gáð.

Miðað við ofangreindar forsendur eru eyðijarðir um 178 talsins, þar af lúta 45 umráðum stofnana. Innan við 50 af þessum eyðijörðum teljast lítið nýttar og sumar þeirra eru jafnvel á friðlýstum svæðum í friðlöndum og/eða án vegasambands í eyðibyggðum.

Mig langar til að nefna nokkrar jarðir, virðulegi forseti, af þeim 50 sem eru lítið nýttar og jafnvel á friðlýstum svæðum. Staður tilheyrir Grindavík og Húsatóftir. Í Vogum eru Litli-Bær og Flekkuvík I og II. Mosfellsbær: Þormóðsdalur og Bringur. Svo ég fari í önnur landsvæði þá er t.d. Flatey og Sandfell í Skaftafellssýslu. Í Rangárvallasýslu má nefna Tungu, Kollabæ I og II, Kotmúla. Í Árnessýslu er t.d. Skarð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Hrunakrókur í Hrunamannahreppi. Í Ölfusi er t.d. Sogn og Arnarbæli. Eins og heyra má af þessari upptalningu er mikil breidd í svokölluðu eyðijörðum.

Þess ber að geta að á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur fram að unnið hafi verið að nákvæmri skráningu jarða sem hafa verið á forræði þess ráðuneytis undanfarin ár. Ég held að sú vinna sé nokkuð langt komin núna.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er ákveðin óformleg stefna í gangi varðandi hvaða jörðum á að halda í eigu ríkisins. Má t.d. nefna þrjár eyðijarðir í Loðmundarfirði sem er vinsælt útivistarsvæði. Það hefur verið stefna að þessar jarðir verði áfram í eigu ríkisins og almenningur eigi að fá að njóta þeirra óheft. En eftir því sem ég best veit hefur þessi stefna ekki enn verið formfest.

Í þessu samhengi vil ég benda á greinargerð, dagsetta í desember 2005, sem þáverandi hæstv. landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, lét vinna fyrir sig. Tveir starfsmenn ráðuneytisins voru fengnir til að leggja mat á og koma með tillögur um hvaða ríkisjarðir á forræði landbúnaðarráðuneytisins — það hefur breyst í áranna rás á hvaða ráðuneyti jarðirnar raðast — skulu ekki verða seldar með það að markmiði að þær verði þjóðareign til framtíðar, samanber 39. gr. jarðalaga, nr. 81/2004, sem áður hefur verið vitnað til.

Með leyfi forseta langar mig til að lesa nokkur brot úr inngangi greinargerðarinnar frá 2005 þar sem þessi vinna er skilgreind og hugmyndafræðin kemur vel í ljós:

„Verkefni þetta er yfirgripsmikið og eins og gefur að skilja ekki til ákveðnar leikreglur að fara eftir. Einkum hefur þó verið litið til þeirra þátta sem valda því að þær jarðir sem lagt er til að verði þjóðjarðir, eru í hugum landsmanna svo sérstakar að talið er rétt sé að þjóðin sjálf eigi þær áfram og að komandi kynslóðir geti haft opið aðgengi að þeim. Má þar nefna atriði eins og sögu jarðarinnar, sérstæða náttúru, legu hennar, menningu og minjar. Er umhugsunarvert að ekki skuli vera til sérstakar reglur um umgengni, viðhald eða starfsemi á jörðum í eigu ríkis, annarra opinberra aðila, kirkju- og jafnvel einkaaðila, sem gegna svo mikilsverðu hlutverki í landkynningu, menningu og sögu þjóðarinnar.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Skýrt skal tekið fram að hér er einungis fjallað um jarðir sem eru á forræði landbúnaðarráðuneytisins. Það er hins vegar skoðun skýrsluhöfunda að leggja ætti svipað mat á aðrar jarðir sem eru á forræði annarra, svo sem undirstofnana landbúnaðarráðuneytisins, annarra ráðuneyta, undirstofnana þeirra og Prestsetrasjóðs. Má hér nefna sögufræg prestssetur, mennta- og menningarsetur og jarðir með sérstöku náttúrufari. Með ákvörðun stjórnvalda í þá veru sem hér er lagt til, má ætla ruddur sé að nokkru vegur fyrir aðra að fara eftir.

Í viðauka við skýrslu þessa er erindi frá Orkustofnun sem lagt var fram af hálfu iðnaðarráðuneytisins. Þar er að finna greinargóðar upplýsingar er varða jarðrænar auðlindir jarða í opinberri eigu og styðja enn frekar þá skoðun að rétt sé að marka stefnu um framtíð þeirra jarða hvað varðar ábúðarréttindi og hugsanlega sölu þeirra.“

Að lokum segir, virðulegi forseti, og það finnst mér nokkuð gott:

„Það er von okkar að áfangaskýrslan varpi ljósi á stöðu þessara mála og á grundvelli hennar verði hægt að marka opinbera stefnu í því hvaða jarðir eigi að vera þjóðjarðir í framtíðinni.“

Þessi greinargerð er dagsett í desember 2005. Það eru níu ár síðan sem er talsvert langur tími. Það má kannski skýra það að þessi stefna hafi ekki verið formfest enn með þeim rökum að jarðirnar hafa verið að færast á milli ráðuneyta og miklar breytingar hafa verið gerðar á ráðuneytunum undanfarin ár.

Ég tel og vil varpa því hér fram í þessari umræðu hvort ekki sé rétt að marka nú skýrari stefnu fyrir þessar þjóðjarðir og formfesta hana betur en mér heyrst hún vera.

Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er nú unnið að gerð landsskipulagsstefnu fyrir árin 2015–2026. Í henni verður sett fram stefna ríkisins í skipulagsmálum og almenn sjónarmið til leiðbeiningar sveitarfélögum við skipulagsgerð. Eftir því sem ég best veit eru þjóðjarðir ekki skilgreindar sérstaklega í landsskipulagsstefnunni heldur er þar um að ræða, eins og ég sagði áðan, almennar leiðbeiningar fyrir sveitarfélög varðandi skipulagsmál.

Flutningsmenn þessarar tillögu telja rétt að við vinnslu skipulags landnotkunar í dreifbýli í komandi landsskipulagsstefnu verði tekið mið af tillögu þessari um nýtingu eyðijarða. Hér er lögð til einföld aðgerð af hálfu stjórnvalda sem stuðlar að sjálfbærri og meiri landnýtingu í dreifbýli. Einnig má benda á að með því að koma ósetnum eða ónýttum jörðum í notkun hefði sú aðgerð jákvæð áhrif á ríkissjóð þar sem jarðirnar færu loks að skila tekjum. Það er mat flutningsmanna að það sé allra hagur að leitað sé leiða til að tryggja sem best nýtingu jarða sem skráðar eru í eyði og eru í eigu ríkisins. Nauðsynlegt er að ríkið sem landeigandi hafi skýra sýn á málaflokkinn og stuðli að landnýtingu sem almennt er talin æskileg á jörðum sínum með tilliti til byggðar og matvælaframleiðslu á viðkomandi svæði.

Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.