144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

25 ára afmæli samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

[10:33]
Horfa

Forseti (Kristján L. Möller):

Forseti vekur athygli þingmanna á því að í dag eru liðin 25 ár frá því að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, 20. nóvember 1989. Alþingi heimilaði ríkisstjórn að fullgilda samninginn með ályktun 13. maí 1992 og hann var svo lögfestur á Alþingi 20. febrúar 2013.

Samningur þessi, sem yfirleitt gengur undir nafninu barnasáttmálinn, er ekki síst mikilvægur fyrir það að með honum voru í fyrsta sinn staðfest sjálfstæð mannréttindi barna að alþjóðalögum. Afmæli barnasáttmálans er kjörið tækifæri til að vekja athygli á réttindum barna og aðstoða börn og ungmenni við að setja réttindin í hversdagslegt samhengi. Það er því ánægjulegt að geta greint frá því að velferðarnefnd Alþingis hyggst halda opinn nefndarfund um barnasáttmálann í byrjun febrúar nk. Munu fulltrúar ungmenna koma á fundinn og gera grein fyrir mikilvægi barnasáttmálans og eiga skoðanaskipti við þingmenn.

Fundurinn verður undirbúinn í samráði við samráðshóp um 25 ára afmæli barnasáttmálans sem starfar á vegum umboðsmanns barna, fulltrúa Barnaheilla og UNICEF á Íslandi.