144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

staða upplýsingafrelsis á Íslandi.

[10:42]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í gær birtist úttekt á vef samtakanna Fréttamenn án landamæra þar sem lýst er áhyggjum af stöðu upplýsingafrelsis á Íslandi. Nefnd eru dæmi þar sem stjórnmálamenn, þar á meðal hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, hafa meðal annars gagnrýnt Ríkisútvarpið fyrir að vera of hallt undir Evrópusambandið og vinstri stefnu, neitað að veita viðtöl nema með skilyrðum og jafnvel sett þetta í samhengi við fjárveitingar til stofnunarinnar.

Þótt það komi ekki fram í úttektinni réðst núverandi stjórnarmeirihluti beinlínis í lagabreytingar til að koma í veg fyrir að útvarpsgjaldið færi aftur að renna óskipt til Ríkisútvarpsins en sú mörkun hafði verið afnumin í hruninu haustið 2008 en átti að komast aftur á nú um síðustu áramót.

Þá er rætt um málsókn aðstoðarmanns hæstv. innanríkisráðherra sem krafðist fangelsisdóms yfir tveimur blaðamönnum DV, þeir höfðu birt ranga frétt sem var þó leiðrétt með afsökunarbeiðni samdægurs. Nú hafa borist fréttir um að leitað sé sátta í því máli sem betur fer og þó það nú væri þegar um er að ræða aðstoðarmann ráðherra mannréttindamála.

Nefnd eru fleiri dæmi sem vert er að hafa áhyggjur af og tekið er sérstaklega fram að dregið hafi umtalsvert úr upplýsingafrelsi á síðustu tveimur árum, þ.e. nokkurn veginn síðan núverandi ríkisstjórn tók við völdum.

Ég vil spyrja hæstv. menntamálaráðherra, ráðherra fjölmiðlamála, um viðbrögð hans við þessari frétt, hvort hann telji í fyrsta lagi ástæðu til að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins sem enn og aftur fær ekki útvarpsgjaldið að fullu til sín. Nýr útvarpsstjóri hefur lýst því yfir í metnaðarfullri framtíðarsýn fyrir stofnunina að það muni þurfa eigi hún að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu.

Í öðru lagi spyr ég hvort hæstv. ráðherra telji ekki að styrkja þurfi stöðu fjölmiðlanefndar sem núverandi stjórnarmeirihluti skar svo rækilega niður í síðustu fjárlögum að hún hefur engan veginn bolmagn til að sinna lögbundnu hlutverki sínu sem skilgreint er í fjölmiðlalögum.

Í þriðja lagi spyr ég hvernig hæstv. ráðherra lítur á þessi mál í ljósi þess að Alþingi Íslendinga samþykkti þingsályktunartillögu um að Ísland skyldi móta sér afgerandi sérstöðu varðandi upplýsinga- og tjáningarfrelsi sem 50 þingmenn samþykktu og einn sat hjá. Hvar stendur (Forseti hringir.) sú ályktun? Þarf ekki að flýta áframhaldandi vinnu hennar til þess að koma í veg fyrir að þessi öfugþróun haldi áfram?