144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

staða upplýsingafrelsis á Íslandi.

[10:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina.

Vissulega á að taka allar ábendingar alvarlega um stöðu fjölmiðla hér, hvaðan svo sem þær berast. Það er sjálfsagt fyrir okkur að hugleiða hvort það sé í raun og veru svo að upplýsingaflæði sé minna núna en var fyrir til dæmis tveimur árum eða að möguleikar fréttamanna til að sinna störfum sínum séu minni en áður. Ég verð þó að segja eins og er að ég hef ekki heyrt neinn sérstakan rökstuðning fyrir því annan en þann sem við þekkjum, að fjölmiðlar á Íslandi, bæði sá sem er rekinn af ríkinu og einkareknir fjölmiðlar, hafa auðvitað fengist við erfiða rekstrarstöðu undanfarin ár. Á einkareknu fjölmiðlunum hefur þurft að grípa til uppsagna á undanförnum árum og hagræða mjög þar í rekstri. Við vonum öll að þeir fjölmiðlar séu komnir fyrir vind og geti sinnt hlutverki sínu og í ljósi aukins efnahagsbata muni staða þeirra styrkjast. Ég minni síðan á hvað varðar Ríkisútvarpið, af því að um það var sérstaklega spurt, að tekið er fram í textanum fyrir fjárlagafrumvarpinu að verið sé að skoða fjármál þeirrar stofnunar og væntanlega mun það þá birtast hér í meðförum þingsins á fjárlagafrumvarpinu.

Ekki hafa komið neinar sérstakar tillögur um aukið fjármagn til fjölmiðlanefndar. Aftur á móti hefur verið uppi umræða um hvort hægt sé að endurskipuleggja starfsemi þeirrar nefndar eða einstök verkefni þar eins og hv. þingmaður þekkir sem gætu til dæmis snúið að samkeppnisstöðu fjölmiðla, hvort hægt væri að vinna það í meiri samvinnu, t.d. við Samkeppniseftirlitið o.s.frv. Það er sjálfsagt að ræða þau mál áfram.

Nýverið svaraði ég (Forseti hringir.) fyrirspurn um stefnuna í upplýsingamálunum.