144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

staða upplýsingafrelsis á Íslandi.

[10:46]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans almennu orð um stöðuna. Hér voru nokkrar mjög konkret spurningar lagðar fram og málin eru í skoðun samkvæmt hæstv. ráðherra.

Það er hægt að gera betur. Ríkisútvarpið gegnir lykilhlutverki í íslensku fjölmiðlaumhverfi. Það þarf að styrkja. Samtök almannaútvarpa sem fjalla um málefni almannaútvarps í Evrópu hafa nú lýst yfir verulegum áhyggjum af þeirri stöðu að útvarpsgjaldið renni ekki óskert til stofnunarinnar. Það má rökstyðja á miklum niðurskurðartímum í miðri krísu en ekki lengur.

Fjölmiðlanefnd var beinlínis stofnuð með nýjum fjölmiðlalögum og ástæða þess að verkefni hennar voru ekki sett undir Samkeppniseftirlitið er einmitt sérstaða fjölmiðla sem fjórða valdsins, undirstöðuvalds í lýðræðissamfélagi. Það er athyglisvert að rifja upp að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Erlu Hlynsdóttur miðaðist einmitt við gömlu prentlögin. Hæstiréttur dæmdi í þeim málum áður en nýju fjölmiðlalögin voru sett. (Forseti hringir.) Fjölmiðlanefnd var ætlað að hafa eftirlit með því að þessum lögum væri framfylgt. Ég spyr því hæstv. ráðherra sem fer með þessi mál, þó að þau séu almennt til skoðunar: Telur hann ekki miðað við stöðuna, ekki bara út frá þessari skýrslu, að ástæða sé til að fara mjög vel yfir þau og skoða hvernig hægt er að styrkja alla þessa þætti?