144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

staða upplýsingafrelsis á Íslandi.

[10:48]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Áðan í síðustu fyrirspurn var rætt um vanda heilbrigðiskerfisins. Þar telja menn í milljörðum sem menn telja að vanti til að geta staðið undir þjónustu þar. Við hv. þingmaður, fyrirspyrjandi, þekkjum bæði mætavel þann vanda sem við er að etja í menntakerfinu, þar þarf að bæta við milljörðum. Við þurfum að bæta við útgjöld til velferðarmála o.s.frv.

Þetta þekkjum við öll. Því miður eru bara takmarkaðir fjármunir til ráðstöfunar. Þess vegna er verið að reyna eftir fremsta megni að auka starfsemina í efnahagskerfinu svo að við höfum þá úr meiru að spila til að geta mætt öllum þeim kröfum sem eru uppi. Ég ítreka það og bendi á að fram kemur í fjárlagafrumvarpinu hvað varðar Ríkisútvarpið að fjárhagsleg málefni þeirrar stofnunar eru til skoðunar. Hafa menn meðal annars bent á efnahagsreikning þeirrar stofnunar og skuldsetningu Ríkisútvarpsins sem hlýtur að kalla á endurskoðun hvað það varðar.