144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjarvinnsluverkefni fyrir skjalasöfn.

[11:03]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það sem mig langaði að ræða hér í dag eru verkefni sem hafa verið á höndum héraðsskjalasafna, Þjóðskjalasafns, og einnig á vegum Þjóðminjasafns Íslands, sem er reyndar búið að færa undir forsætisráðuneytið. Ég geri ráð fyrir að mennta- og menningarmálaráðherra þekki til þessara verkefna, en þau snúa að fjarvinnslu. Þarna erum við gjarnan að tala um litla peninga í sjálfu sér í stór verkefni. Þetta eru svolítið ósýnileg verkefni, það er ekki mikið um þau talað og þau eru ekki áberandi eða kröfuhörð í umræðunni en skipta gríðarlega miklu máli. Það er afar mikið óunnið verk í þessum geira, að skanna inn myndir og skjöl og ýmislegt fleira.

Mig langar að ræða það við hæstv. ráðherra hvort við megum eiga von á því að þessum verkefnum verði haldið áfram. Það hefur til dæmis verið verkefni í gangi í menningarmiðstöðinni á Húsavík, það er reyndar undir Þjóðminjasafninu, sem tekur rúmlega eitt og hálft stöðugildi. Það eru skönnunarverkefni á vegum Alþingis í mínum heimabæ, Ólafsfirði, og fleiri verkefni víða um land þar sem þessi stöðugildi skipta miklu máli.

Nú erum við að renna inn í það að fá tillögur við 2. umr. fjárlaga og mig langar því að spyrja ráðherra um stöðu þessara mála. Eru þau störf sem nú þegar er verið að vinna á vegum þessara safna víða um land tryggð? Eða telur hann að þeim verði fækkað núna með (Forseti hringir.) komandi fjárlögum?