144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Alþingi samþykkti heildarupphæð sem renna átti til barnafjölskyldna í landinu. Stjórnarmeirihlutinn felldi tillögu þegar ljóst var um mitt ár að það yrði afgangur af barnabótum og upphæðin sem Alþingi hafði samþykkt mundi ekki renna til barnafjölskyldna. Stjórnarmeirihlutinn felldi þá tillögu, þannig að það var algjörlega fyrirséð að afgangur yrði af barnabótunum og að ætlun stjórnarmeirihluta um að skera niður þá upphæð gekk eftir.

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður ræðir mikið um viðsnúning í ríkisfjármálum. En nú er það þannig að myndir eru í fjárlagafrumvarpinu sem sýna þróun undanfarinna ára þar sem allar súlur eru á uppleið, þ.e. að staða ríkissjóðs er betri, hagvöxtur er betri og kaupmáttur er betri. Allar súlurnar eru á réttri leið. Ef um viðsnúning er að ræða þá ættu súlurnar að vera á niðurleið. Vill hv. þingmaður útskýra það fyrir mér hvað hún á við um viðsnúning í ríkisfjármálum?