144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér eru barnabæturnar enn til umræðu. Hv. þm. Oddný Harðardóttir verður að skilja það hvernig tekjutenging bóta við laun virkar. Þegar ég tala um náttúrulega lækkun á barnabótum er það vegna þess að viðkomandi aðilar eru komnir upp fyrir það hámark sem tekjutengingin leiðir og þar af leiðandi hættir viðkomandi aðili að fá barnabætur. Ég lít svo á að fólk með miklar tekjur eigi ekki að fá barnabætur í formi ríkisstyrks frá ríkinu þegar ákveðnum viðmiðunarlaunum er náð. Þannig virkar tekjutenging í vaxtabótakerfinu, barnabótakerfinu, lífeyrissjóðskerfinu, almannatryggingakerfinu, og það er það sem gerðist. Við eigum að fagna því að sem flestir séu með það góð laun að þeir þurfi ekki á þeirri ríkisaðstoð að halda sem felst í barnabótum.