144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:45]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir framsöguna hér.

Mig langar til að spyrja hana um tvennt. En ég vil byrja á því að segja að auðvitað gerðum við í minni hlutanum athugasemdir við sjálft fjárlagafrumvarpið. Við hefðum viljað ráðstafa fjármunum á annan hátt. Við teljum ekki ástæðu til að týna til einhverja örfáa þætti inn í fjáraukalagafrumvarpið enda erum við sammála þeim tilgangi sem það á að sýna. Ég get meðal annars nefnt að við hefðum kannski ráðstafað með öðrum hætti 16 milljörðunum sem fóru til viðbótar í skuldaniðurfellinguna.

Mig langaði til að spyrja um tvennt. Það varðar landbúnaðarháskólann okkar sem við höfum reyndar rætt mikið í nefndinni. En það sem hér er sérstaklega verið að leggja fram höfum við ekkert rætt, ekki neitt. Hér fær landbúnaðarháskólinn 15 milljónir vegna rektorsskipta. Ég spyr hv. þingmann: Hefði verið eðlilegt, þegar skipti urðu á (Forseti hringir.) Heilbrigðisstofnun Austurlands, að þeir fengju sérstakt fjármagn eingöngu vegna þess? Mér finnst þetta ekki vera eitthvað sem við höfum alla jafna verið að ræða í fjárlaganefnd.