144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Eins og þingmaðurinn veit má eiginlega segja að fjárlaganefnd sé búin að vera með Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri í hálfgerðri gjörgæslu. Margir aðilar sem tengjast skólanum hafa komið á fund nefndarinnar, sveitarstjórnin, stjórn háskólans, rektor og fjármálastjóri, menntamálaráðuneytið, þannig að við höfum virkilega skoðað rekstur þessa skóla.

Enn vantar ákvörðun um hvort skólinn eigi að fara eða vera. Þingmaðurinn þekkir það mjög vel. Rektorinn hætti í vor og nú starfar rektor til bráðabirgða og búið að auglýsa eftir nýjum. Eins og allir vita hafa þessir aðilar biðlaunarétt og annað.

Í tillögum okkar stendur: „meðal annars vegna rektorsskipta“, en skólinn hefur sýnt mikið aðhald og stefnir í (Forseti hringir.) að hann haldist innan fjárheimilda á þessu ári. En það var ákvörðun meiri hlutans að veita þessar 15 milljónir til skólans til þess að (Forseti hringir.) ná smáviðspyrnu.