144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:47]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski akkúrat punkturinn sem ég var að koma inn á, af því að þetta er veitt til rektorsskipta. Ég tek undir það með hv. þingmanni að við höfum haft miklar áhyggjur af þessum skóla, hann er kominn að fótum fram miðað við stöðuna, búið að skera svo mikið niður, eða fjárframlögin eru of lítil miðað við það umfang sem að minnsta kosti er skilgreint í dag.

Það sama á við um Hólaskóla. Kal í túnum er ekki nýtt. Ég og hv. þm. Haraldur Benediktsson ræddum það á síðasta þingi, kal í túnum og þann óskunda sem það olli, þannig að það er í raun ekki ófyrirséð. Þess vegna spyr ég líka: Af hverju að veita sérstaklega fjármuni í það án þess að það sé tekið fyrir í nefndinni og við ræðum það? Eflaust hefðum við samþykkt það en við hefðum þurft að ræða þetta.

Af hverju eru tiltekin verkefni tekin inn núna án þess að þau hafi nokkurn tímann verið lögð fyrir nefndina? Það er það sem ég er að gagnrýna.