144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir þessa fyrirspurn. Í fjárlögum hvers árs er liðurinn óvænt útgjöld. Mig minnir að hann hafi verið 5 milljarðar fyrir þetta fjárlagaár. Sá liður á einmitt að taka á kjarasamningum og óvæntum atvikum eins og náttúruhamförum. Það er alltaf eitthvert svigrúm í fjárlögum hvers árs. Ég skal ekkert segja um það, kannski þarf potturinn að stækka vegna þess að það eru svo margir lausir kjarasamningar núna, en þetta er að mínu mati alveg valdað með því þannig að framkvæmdarvaldið hefur þó heimild til þess að biðja um eftiráfjárveitingu í þetta, tilkynna að þetta hafi verið notað með þessum hætti og rökstyðja það.

Þingmaðurinn spurði jafnframt hvort einhverjir aðilar væru að taka sér fjárveitingavald fram hjá Alþingi. Já, virðulegi forseti, því miður er það svo og fór ég yfir það í ræðu minni að til dæmis sjálft Alþingi Íslendinga fór fram hjá sínum eigin reglum í fjárlagagerðinni (Forseti hringir.) með því að borga út snemma árs kostnað við rannsóknarnefndir Alþingis án þess að hafa fyrir því fjárveitingu. Ég (Forseti hringir.) er ekki hrifin af svoleiðis vinnubrögðum.