144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að menn átti sig á því hvar fjárveitingavaldið liggur. Samkvæmt stjórnarskrá liggur það hjá Alþingi einu og hvergi annars staðar. Hvorki fólk á Alþingi né annars staðar á að geta tekið sér fjárveitingavald.

Hv. þingmaður svaraði ekki hvernig henni litist á þá hugmynd að hafa mörg fjáraukalög. Það gerist ýmislegt óvænt á árinu og ekki í takti við fjárlög. Síðasti fundur Alþingis verður 12. desember samkvæmt áætlun í ár og þá eru eftir 19 dagar af árinu og ýmislegt getur gerst. Ég er ekki að segja að það gerist en það gæti til dæmis orðið óskaplegt tjón ef Bárðarbunga gysi og miklu meira en við erum að tala um sem þessi varasjóður stendur undir.

Hvernig líst hv. þingmanni á að síðasta útgáfa fjáraukalaga sé samþykkt á fyrsta fundi eftir áramót?