144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[12:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi fyrra atriðið um sérgreinalækna þá voru þeir án samnings og gátu bara sett upp það verð til sjúklinganna sem þeim datt í hug. Þeir gátu sent þeim reikning og gerðu það án samnings. Þegar samningur var gerður var þetta framlag lækkað. Í því fólust samningarnir. Það eru alla vega mínar upplýsingar, það getur verið að þær séu rangar. Mínar upplýsingar ganga út á að gjaldið hafi verið lækkað. Út á það gengu samningarnir við sérgreinalækna.

Varðandi barnabæturnar. Mér vitanlega hafa hvorki verið samþykkt fjárlög né fjáraukalög frá því fyrir ári síðan. Hvernig á ríkissjóður að mæta því þegar tekjur aukast meira en menn bjuggust við í fjárlögum? Hvað eiga menn þá að gera? Eiga þeir að lækka launin? Hvernig sér hv. þingmaður það? Reglurnar segja að framlag ríkisins lækki vegna þess að tekjur almennings urðu svona miklu meiri. Það finnst mér reyndar, frú forseti, vera jákvætt. Þeir sem áður töldust þurfa barnabætur vegna lágra tekna þurfa þær ekki lengur af því tekjur þeirra hafa hækkað.