144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[12:33]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum fjáraukalög vegna ársins 2014. Hér hefur eitt og annað verið reifað. Mig langar að byrja á því að ræða aðeins þær tillögur sem meiri hlutinn leggur fram og lýsa ánægju minni með ákveðna þætti þar inni þar sem ég tel að það hafi verið ljóst við upphaf fjárlagagerðar að ættu ekki endilega heima hér, en það er vel að það er þó reynt að gera þetta. Eins og formaður nefndarinnar sagði hér í upphafi þá getur tekið tíma að gera frumvarpið þannig úr garði að það verði sem allra minnst. Ég tek undir það og ég held að við viljum öll hafa fjárlögin það skýr að það þurfi ekki nema helst mjög óvænta liði inn í fjáraukann.

Ég ræddi landbúnaðarháskólana áðan og hefði viljað sjá þessar tillögur unnar í meiri sameiningu. Margar þeirra eru a.m.k. þess eðlis að þær ætti að ræða í fjárlaganefnd sem einhverju næmi en ekki setja þær bara fram og taka út. Ég held að það séu vinnubrögð sem við viljum öll og vonandi verður stefnt að því.

Ég er afskaplega ánægð með að sjá að Háskólinn á Akureyri fékk framlag í fjárlögum 2013 sem ekki var gert ráð fyrir að væri tímabundið heldur væri það vegna rannsóknarmissira. Skólinn er búinn að standa sig afskaplega vel. Ég vona að við sjáum þetta þar inni við 2. umr. fjárlaga sem fast framlag.

Ég verð líka að taka upp hérna framhaldsskólana sem við erum óskaplega mikið búin að ræða í þinginu og vil lýsa ánægju minni með að hið svokallaða gólf skuli vera sett inn aftur fyrir litlu framhaldsskólana úti á landi. Þetta er lífæðin mjög víða og skiptir gríðarlega miklu máli, sérstaklega meðan verið er að ganga í gegnum þær breytingar sem boðaðar eru en þá er auðvitað ekki hægt að gera allt í einu. Mér finnst afskaplega ánægjulegt að þessi niðurstaða hafi náðst.

Eins er með Þorgerðarsjóð. Það er gott að það kom framlag inn í þann sjóð og var vel til fundið á sínum tíma að stofna hann. Ég vona að ég hafi ekki skilið formanninn rétt að við mættum eiga von á því að framlögin yrðu minni á næsta ári en þörf virðist vera fyrir. Þetta kemur að hluta til vegna þess að þetta fólk er, sem betur fer, orðið duglegra að reyna að eiga í almennum samskiptum við land og þjóð án þess að leggja út í gríðarlegan kostnað. Ég áttaði mig ekki alveg á því hvað hv. formaður fjárlaganefndar boðaði hér áðan þegar mér heyrðist hún segja að það væri hægt að fara betur með fé en gert væri. Ég hef svolitlar áhyggjur af því.

Varðandi Ríkisútvarpið og 10 millj. kr. lækkunina þá skil ég það eiginlega ekki og velti því líka upp hér. Það kemur fram í fjáraukalagafrumvarpi. Þrátt fyrir ríkisstjórnarsamþykktina sem hér var vitnað í upp á 30 milljónir er samt sem áður lagt fram fjáraukalagafrumvarp sem ráðuneytið sem slíkt leggur ekki fram heldur ráðherrarnir. Mér finnst skrýtið ef ráðherrann leggur til 10 milljónir og samt virðist ríkisstjórnarsamþykktin frá því í vor ganga framar óskum ráðherra. Ég hefði haldið að fjáraukalagafrumvarpið væri lagt fram með blessun fjármálaráðuneytisins, sem manni heyrist ráðuneytin og ráðherrar oftast glíma við, þannig að mér finnst þetta skrýtið. Samningurinn virðist ganga út á að það þurfi þessar 10 milljónir til viðbótar.

Ég hef líka miklar áhyggjur af Vegagerðinni og því að við séum að færa af framkvæmdaliðunum yfir á viðhald. Það er verulegt áhyggjuefni. Innviðirnir eru að molna. Við erum öll meðvituð um það. Viðhaldi hefur verið ábótavant líka. Ný samgönguáætlun hefur ekki litið dagsins ljós enn þá. Það hlýtur eiginlega að stafa af því að það vantar hreinlega fjármuni í þau verkefni sem þar eru undir. Þetta er öryggismál og því mikið áhyggjuefni að þetta skuli vera gert svona. Ég trúi ekki öðru en að úr því verði bætt, sérstaklega þar sem þeir landsbyggðarþingmenn sem eru í fjárlaganefnd þekkja afskaplega vel vegina okkar og ástand þeirra en það eru ekki bara vegirnir heldur líka ýmis öryggisatriði þeim tengdum og önnur verkefni sem Vegagerðin er með. Ég held að við þurfum að sameinast um, sem hluta af innviðauppbyggingu, að bæta í en ekki að færa úr nýframkvæmdaliðum í viðhald.

Eins og hér hefur komið fram er ekki allt ófyrirséð í þessu frumvarpi frekar en stundum áður. Það er þó ákveðið áhyggjuefni að við stöndum frammi fyrir því að ekki er enn komin nein niðurstaða um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Frumvarp er ekki komið og það virðast heldur ekki vera áætlaðir fjármunir í fjárlagafrumvarpinu í þetta þrátt fyrir að það hafi verið eitt af því sem lá ljóst fyrir. Það var eins og það væri kergja í mannskapnum og það mætti ekki samþykkja þetta af því það var í fjárfestingaráætluninni. Það virðist hafa verið aðalástæðan fyrir því að þetta var skorið niður. Það er full þörf á þessu fé og gott betur því að það er margt þarna undir sem er vanfjármagnað.

Mig langaði líka að ræða stóra málið. Eins og formaður nefndarinnar kom inn á er ákveðið að setja 16 milljarða til viðbótar í það sem kallað hefur verið leiðrétting. Ég hef vanalega kallað það niðurgreiðslu. Samantektin af því þegar fræðimenn eru inntir eftir orðanotkun er varðar þessi mál er ágæt. Það skiptir máli hvernig við tölum um þessa hluti. Ég hef talað svolítið um það sem kallað hefur verið forsendubrestur. Hvað er það þegar forsendur bresta? Getum við tekið eitthvað út fyrir annað? Ég tala nú ekki um þegar efnahagshrun verður hjá heilli þjóð þá verða auðvitað allir fyrir einhverjum forsendubresti. Þess vegna finnst mér og okkur greinir á um það, eins og hefur komið hér ítrekað fram, að margir aðrir hafi orðið fyrir forsendubresti. Þess vegna hefði mátt nýta þetta fjármagn með margvíslegum öðrum hætti í átt til meiri jöfnuðar í samfélaginu. Það getur falist bæði í formi niðurgreiðslu ríkisskulda og öðru.

Gauti Kristmannsson, dósent í þýðingarfræði við Háskólann, segir, með leyfi forseta:

„Leiðrétting er dæmigerð skrauthvörf sem og forsendubrestur þar sem menn gefa sér tiltekna hluti og orða svo samkvæmt því. Síðan er endurtekningin notuð til að hamra á hlutunum þannig að menn fá hugtakið inn í heilann og jafnvel þó þeir trúi því varla verður að ræða það á forsendum þess.“

Það er svolítið það sem við höfum verið að fást við í þinginu, í kosningabaráttunni o.s.frv. Það yfirgnæfir einhvern veginn allt af því að hamrað er mikið á því án þess endilega að það hafi þá meiningu eða innstæðu sem að baki býr.

Gauti gagnrýnir líka andvaraleysi fræðimanna og blaðamanna fyrir að hafa tekið þessari orðræðu án nokkurs fyrirvara og gefið henni vængi, eins og hann segir. Hann telur að hvorki íslenskir blaðamenn né fræðimenn hafi staðið sig í stykkinu í allri þessari umræðu. Ég held því miður að maður verði að taka undir að svo sé. Við hefðum þurft að taka þessa umræðu af mun meiri gagnrýni en gert var og þá ekki endilega út frá ágreiningi okkar innan stjórnmálanna heldur fyrst og fremst hvernig hún var sett fram og rædd í framhaldinu.

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að fara yfir álit okkar í minni hluta fjárlaganefndar. Ég verð að taka undir með framsögumanni okkar álits að það er pínu hjákátlegt að tala um 1. minni hluta og 2. minni hluta þegar um er að ræða meiri hluta sem náði ekki inn á nefndarálitið. Til áréttingar ætla ég að leyfa mér að tala hér um minni hluta og meiri hluta.

Mig langar að fara aðeins yfir það sem kallað er óreglulegar tekjufærslur í áliti okkar í minni hlutanum. Það varðar Seðlabankann og þær breytingar sem verið er að gera á lögum um hann og hvernig það kemur við ríkissjóð og er meðal annars notað til að fjármagna skuldaniðurfærsluna.

Gert er ráð fyrir að eigið fé Seðlabankans verði lækkað um 21 milljarð. Það verður í formi arðgreiðslu í ríkissjóð. Andvirðið sem slíkt á að notast til að greiða inn á skuldabréf sem var á sínum tíma notað til að styrkja eiginfjárstöðu Seðlabankans eftir hrun. Frumvarpið gerir vissulega ráð fyrir 26 milljörðum, en ríkisstjórnin óskaði eftir því að upphæðin yrði lækkuð um 5 milljarða þar sem tekjuáhrif í tengslum við fjárhagsleg samskipti við Seðlabankans leiða til samtals 5 milljarða kr. tekjulækkunar frá frumvarpinu eins og kom fram í minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu. Okkur fannst þetta villandi. Sem betur fer var fundur haldinn með Seðlabankanum, ráðuneytinu og Ríkisendurskoðun. Ég held að allir fjárlaganefndarmenn hafi haft gagn af honum. Þetta er ekki mjög flókið, en samt er þetta flókið vegna þess að það skiptir auðvitað máli hvernig með þetta er farið í ríkisreikningi.

Þetta skuldabréf var 171 milljarður í lok ársins 2013. Gjaldfresturinn var lengdur til 1. janúar 2015 og hafa viðræður átt sér stað um bréfið, að það verði til 29 ára með reglulegum afborgunum. Vextirnir hafa breyst töluvert. Það var verðtryggt með 2,5% vöxtum. Í fjárlögum í ár var gert ráð fyrir því að skuldabréfið yrði vaxtalaust, þar af áttu að koma 10 milljarðar í ríkiskassann. Seðlabankinn gerði athugasemdir við það, var ekki tilbúinn að samþykkja það og því náðist ekki samkomulag. Nú hefur enn verið gengið til samningaviðræðna og var samið um að bréfið bæri breytilega vexti — nú eru þeir eitthvað örlítið lægri en 5%. Sú niðurstaða þýðir að ríkið ber aukin vaxtagjöld.

Höfuðstóll skuldabréfsins er lækkaður í fjáraukalagafrumvarpinu. Við ræddum það aðeins í gær en það kemur inn á breytingar á viðmiðum Seðlabankans um eigið fé og arðgreiðslur og innkallanlegt eigið fé Seðlabankans. Ríkisendurskoðun gerir við þetta athugasemd. Það var ágreiningur á fundi fjárlaganefndar um það með hvaða hætti þetta yrði fært, eins og ég sagði hér áðan og ræddi einnig í gær um þetta mál.

Vert er að hafa tvennt í huga í þessu sambandi. Annars vegar, hafi ég skilið þetta rétt, ef myndast arður í Seðlabankanum þessi 29 ár þá fer hann til niðurgreiðslu á láninu, allt að 5 milljarðar á ári, en ef arðurinn verður eitthvert árið afskaplega lítill, 2 milljarðar eða eitthvað slíkt þá þarf ríkið að borga 3. Svona var þetta lagt upp fyrir okkur.

Það er mikilvægt að við höfum það í huga að við erum að ræða breytingar á lögum um Seðlabankann á afskaplega fáum dögum. Þetta er mjög mikilvæg stofnun í samfélaginu. Það er gagnrýnisvert, sérstaklega í ljósi þess að um er að ræða opinn tékka á ríkissjóð upp á 52 milljarða. Það virðist ekki alveg liggja fyrir hvernig beri að bókfæra þetta hjá ríkissjóði. Það koma í rauninni ekki nein svör við því hvernig farið verður með þennan opna tékka.

Við í minni hlutanum höfum gagnrýnt það í ræðu og riti í tengslum við fjárlögin og fjáraukalögin og við önnur tilefni að við hefðum viljað nýta féð með öðrum hætti, m.a. í uppbyggingu innviða. Ég nefndi Vegagerðina hér áðan. Landspítalinn okkar og Sjúkrahúsið á Akureyri eru stoðstofnanir og fjárþurfi. Við hefðum gjarnan viljað nýta féð í þær og teljum að það hefði gagnast allri þjóðinni en ekki bara um 28% hennar eins og niðurgreiðsla skuldaleiðréttingarinnar gerir. Ég held að það sé mjög mikilvægt því að á meðan við leggjum ekki mikla peninga í innviðina þá molna þeir hægt og rólega í sundur. Ég er ekki viss um að það myndist svona mikið rými á næstu árum eins og núna. Vonandi verður það því að fjárþörfin er svo sannarlega til staðar.

Mig langar líka rétt í lokin að tala um byggðaáætlunina. Þarna er sett inn eitt verkefni í Bíldudal sem er örugglega vel að þessum fjármunum komið. Í sjálfu sér ætla ég ekki að taka það sérstaklega fyrir, en mér finnst það mjög athugunarvert að eitthvert eitt verkefni sem hefur enga umræðu fengið í fjárlaganefnd, ekki nokkra, og við vitum eiginlega ekkert um sé sett hér inn og með 50 milljónir til viðbótar á næsta ári. Eina sem við höfum heyrt er að þetta sé brothætt byggð. Þær eru svo sannarlega fleiri sem mundu þiggja slíka fjármuni. Mér dettur Breiðdalsvík í hug til að byrja með. Kvótinn hefur víða verið færður í burtu og vonandi verður það ekki gert með því frumvarpi sem fer að koma inn í þingið; það verður vonandi til þess að styrkja byggðirnar. Þetta er verkefni sem maður skilur ekki alveg. Af hverju þetta en ekki einhver önnur? Eins og ég segi þá er ég ekki að setja út á verkefnið sem slíkt heldur að það fái forgöngu frekar en önnur. Þar sem við vorum að tala um að kannski þyrfti aðlögunartíma til að draga úr því sem kemur inn í fjáraukalagafrumvarpið þá verður líka að gæta jafnræðis.

Að lokum ætla ég að tala um málskostnað í opinberum málum. Það er stórt og mikið mál. Það er sagt að Ríkisendurskoðun sé með málaflokkinn til skoðunar og að niðurstaða liggi vonandi fyrir fljótlega þar sem frekara ljósi verði varpað á útgjaldaþróunina og til hvaða aðgerða megi grípa til að ná tökum á kostnaðinum. Þetta er viðkvæmur málaflokkur. Það er mikilvægt að koma slíkri ábendingu á framfæri að Ríkisendurskoðun á að vera eftirlitsaðili en á ekki að taka stefnumarkandi ákvarðanir fyrir framkvæmdarvaldið. Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga því að Ríkisendurskoðun þarf að vera algjörlega aðskilin framkvæmdarvaldinu til að geta dregið eigin ályktanir og því um líkt og á ekki að stunda greiningar eða eitthvað slíkt fyrir framkvæmdarvaldið.

Virðulegi forseti. Ég held að ég sé nokkurn veginn búin að fara yfir þessi mál. Ég tek það enn og aftur fram að ég er að mörgu leyti fylgjandi ákveðnum þáttum í viðbótinni við breytingartillögurnar. Ég hugsa að ég komi til með að óska eftir því að þær verði teknar hver fyrir sig, ef það verður ekki lagt upp þannig, því að ég get ekki greitt þeim öllum atkvæði mitt, en mér finnst klárlega hluti af þeim alveg hafa átt heima í fjárlögum eins og við bentum á.