144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[13:55]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Sem varaþingmaður sem tekur sæti á Alþingi getur maður ekki staðist það að taka til máls og þá sérstaklega um fjáraukalagafrumvarpið. Þegar ég var frambjóðandi í Norðvesturkjördæmi til alþingiskosninganna 2013 lagði ég einmitt gríðarlega mikla áherslu á ríkisfjármálin, þann aga sem þarf að beita þar og hvað hann skiptir miklu máli fyrir samfélagið. Það verður að segjast eins og er að á sumum framboðsfundum þótti þetta ekkert ofsalega spennandi umtalsefni og margt annað sem brann á fólki, en það hefur alltaf brunnið mjög á mér hvað þetta skiptir miklu máli því að á þessum grunni, aga í ríkisfjármálum, byggjum við velferð okkar í landinu.

Því fagna ég því sérstaklega að heyra þingmenn koma hér upp, bæði úr minni hluta og meiri hluta, og tala um að það séu breytingar á fjáraukalagafrumvarpinu þannig að fjáraukinn sé í raun og veru minni í sniðum, færri atriði séu tekin þar inn nú en áður. Það er svo sannarlega rétt að í fjáraukalögum á einungis að vera það sem er óvænt og ófyrirséð og þau ættu því ekki að vera mjög þykkur bæklingur.

Þingmönnum hefur líka verið tíðrætt um tímasetningar, málið sé seint fram komið. Miðað við það sem ég hef fylgst með af þinghaldi í gegnum árin þá held ég að það sé nokkuð á svipuðum tíma og verið hefur. En ég tek sannarlega undir það að auðvitað má vinna hlutina fyrr og frumvarpið mætti kannski koma fram fyrr.

Það er eitt sem vekur athygli mína þegar við skoðum tekjuhliðina. Það hefur ekki verið farið mörgum orðum um það nema af framsögumanni, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, að tekjur ríkissjóðs eru að aukast, tekjur einstaklinga og staðgreiðsla lögaðila. Það tel ég sérstakt fagnaðarefni vegna þess að það hlýtur að segja okkur að landsframleiðslan sé að aukast og við erum að ýta okkur fram á við þar. Það er líka eitt af því sem mér hefur verið mjög hugleikið varðandi þá stöðu sem við höfum verið í eftir hrun, eina rétta leiðin út úr þeim vanda er að framleiða og skapa verðmæti í samfélaginu.

Það voru sérstaklega ánægjulegar fréttir í vikunni þar sem heimsótt var sprotafyrirtæki úti á Seltjarnarnesi og það er svo margt í gangi í íslensku samfélagi. Ég nefni umfjöllun Morgunblaðsins þar sem farið var vítt og breitt um landið og mátti sjá að það er mikil gerjun í gangi, það er margt að gerast. Mér finnst því ekki haldið nægilega vel á lofti. Það þarf að blása landsmönnum öllum von í brjóst um að við séum að snúa á rétta braut og að það sé bjartari tíð fram undan. Þess vegna þótti mér mjög leiðinlegt að heyra að hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir gat ekki séð að slíkt væri að gerast, en ég held að öll merki og teikn séu á lofti um að við séum á réttri leið.

Í því samhengi vil ég nefna að ég hef búið á svæði þar sem hefur verið stanslaus samdráttur í yfir 20 ár. Ég þekki því vel hugarfarið sem smitast inn þegar blæs á móti, störf hafa tapast, fyrirtæki hafa farið af vettvangi og íbúum fækkað gríðarlega. Nú er þar uppgangur og mikið að gerast og þá finnur maður hvað það skiptir ofboðslega miklu máli að blása íbúum von í brjóst. Það finnst mér kannski vera samlíking við það sem er að gerast hjá okkur þegar maður sér að tölurnar eru að breytast á þennan hátt. Við þurfum að blása hvert öðru von í brjóst og vera á jákvæðari nótunum. Uppbyggileg gagnrýni á málefnalegum grunni er alltaf góð. Það er nú einu sinni svo að þeir stjórnmálaflokkar sem skipa Alþingi verða aldrei fullkomlega sammála um forgangsröðun, það liggur í hlutarins eðli. Við munum örugglega seint hætta að takast á um það að eitt sé merkilegra en annað.

Hér var gagnrýnt, bæði af hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttur og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttur, að í frumvarpinu væri ákveðin fjárveiting inn á sunnanverða Vestfirði til Bíldudals, sem tengist þeirri gríðarlegu atvinnuuppbyggingu sem þar á sér stað og ég kom inn á áðan. Jú, það er gilt sjónarmið að þetta eigi ekki heima í fjáraukanum, en það er kannski ekki hægt að segja að sú gríðarlega uppbygging, sérstaklega á þessu ári, hafi verið svo fyrirséð. Mér þykir sérstaklega vænt um að sjá að það er stuðningur við þetta verkefni. Í fjárlögum var ráðstafað peningum til uppbyggingar á Bakka og ég lít þetta sömu augum, en það gleður mig jafnframt að það skuli vera eyrnamerkt fjárframlag fyrir árið 2015.

Í prinsippinu eins og ég sagði í upphafi er ég náttúrlega algjörlega sammála því að fjáraukalög eiga fyrst og síðast að taka á óvæntum og ófyrirséðum verkefnum.

Þá langar mig að vitna í álit 1. minni hluta og þar kemur fram, eins og ég var að segja rétt í þessu, mikilvægi þess að sporna við agaleysi og beita agaðri vinnubrögðum við gerð og framkvæmd fjárlaga. Það kemur jafnframt fram að betur má ef duga skal af því að í frumvarpinu sé að finna fjárveitingar sem ekki eru til fyrirmyndar að því leyti. Hv. þingmenn hafa reyndar bent á að fjáraukinn nú sé mun þynnri pappír en hann var fyrir ári síðan. Það er jákvætt og á þeirri braut eigum við að halda áfram.

Mig langar líka að nefna það sem ég hef oft nefnt en eftir hrun tóku sveitarfélög landsins sig til og settu sér fjármálareglur sem eru til mikillar fyrirmyndar og tóku á sínum málum. Eftir því hefur verið tekið hversu mikill viðsnúningur hefur orðið eftir að sveitarfélög landsins fóru að vinna eftir fjármálareglum sínum og beita mjög svo öguðum vinnubrögðum. Þetta finnst mér og hef alltaf sagt að ríkið ætti að taka sér til fyrirmyndar. Ég held að frumvarp um opinber fjármál sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram sé mjög gott skref í þá átt að taka á þessu. Ég held að við munum sjá innan fárra ára mikinn viðsnúning.

Því langar mig enn og aftur að fagna því að heyra að þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað í dag hafa allir tekið undir það að við þurfum að beita okkur slíkum aga til framtíðar. Þess vegna hef ég líka velt því upp hvort stefnumótun í þessum efnum sé til nógu langs tíma, hvort kjörtímabilin séu í raun of stutt og það þurfi að sameinast um stefnumótin til mun lengri tíma í þessum málaflokki.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að ríkið eigi að sjá um grunngerð samfélagsins og þá munu einstaklingar og fyrirtæki sem byggja á þeim grunni þrífast vel. Það er mjög mikilvægt að ríkið komi að þessari grunngerð. Við getum náttúrlega deilt endalaust um forgangsröðunina, en í mínum huga er hún heilbrigðismálin, menntakerfið, innviðir samgöngukerfisins, svo eitthvað sé nefnt.

Þegar öllu er á botninn hvolft er það aginn sem við þurfum að hafa í ríkisfjármálunum sem við byggjum allt samfélagið á. Á þeim grunni byggjum við framtíðina. Ég hef þá trú að við sem tilheyrum þessari 300 þúsund manna þjóð getum lifað vel í þessu samfélagi og því finnst mér mjög mikilvægt að við höldum á þeirri braut sem hefur verið mörkuð og þá verður bjart fram undan í íslensku samfélagi.