144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:06]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina.

Já, ég hef fulla trú á því. Það var nú meðal annars ástæða þess að ég ákvað að gefa kost á mér til setu á Alþingi, ég náði því miður ekki alveg inn, munaði mjóu. En þetta var mitt áhugamál, hafandi horft á sveitarfélögin taka á sínum málum af slíkri festu og taldi að það væri einmitt það sem ríkið ætti að gera. Ég tel, eins og ég sagði áðan, að við séum farin að marka þá leið með frumvarpi til nýrra laga um opinber fjármál. Það er líka svo ánægjulegt, svo ég endurtaki mig nú, að heyra að þingmenn í fjárlaganefnd sem hér hafa tekið til máls eru einmitt á sömu braut.

Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að í fjáraukalögum eigi ekki að vera ný verkefni. Það sem ég dró líka fram var að ég vildi þakka nefndinni fyrir að setja þetta framlag inn vegna þeirrar stöðu sem er uppi í því samfélagi einmitt núna. Jú, það er gott mál að stofna sjóð til að vinna að slíkum verkefnum, en þarna er verkefni sem er komið mjög langt í samfélagi sem hefur átt mjög undir högg að sækja. Það var ekki beðið fram á árið 2015 að hefja framkvæmdir. Mér finnst því mjög eðlilegt að þetta skuli koma inn, en ég tek algjörlega undir með þingmanni hvað það varðar að ný verkefni eigi að öllu jöfnu ekki að vera í fjáraukalögum og þau vinnubrögð eigum við að hafa í hávegum.