144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:08]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í þessa umræðu, ekki til þess að lengja hana mikið, en ég tók þátt í 1. umr. Það hefur komið fram í umræðunni að flestir eru sammála um að fjáraukalög eigi fyrst og fremst að vera til þess að leiðrétta ákveðna hluti sem hafa komið óvænt upp á hverju ári. Ég vil þó halda því fram að við séum einfaldlega ekki komin svo langt, enda ber frumvarpið með sér að þessi regla heldur ekki, hvorki með þeim tillögum sem hafa verið fluttar, fyrst í sjálfu frumvarpinu, né í þessum litlu viðbótum sem koma við 2. umr. Maður veltir því mikið fyrir sér hvaða skilaboð eru gefin með svona fjáraukalögum, vegna þess að mér finnst skipta miklu máli hvað er í fjáraukalögum, en líka hvað er þar ekki og af hverju það er þar ekki.

Það ber að fagna því að ríkissjóður er að styrkja sig og hefur auknar tekjur. Við getum svo deilt um hvernig þeim tekjum er ráðstafað, í hvaða forgangsröð þeim er eytt og hvaða hópar verða út undan. Ég nefni þetta vegna þess að það var töluverð umræða um þetta þegar stjórnarskipti urðu árið 2013. Þá eru í gildi fjárlög og út úr því ári, 2013, koma stofnanir með mismunandi afkomu, sumar hverjar með halla. Síðan koma ný fjárlög 2014. Það er engan veginn skýrt í fjárlögum hvaða framlög eru til þess að borga hallann frá árinu á undan og hvaða framlög eiga að styrkja rekstrargrunn.

Ég hvet hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, formann fjárlaganefndar, að hafa þau skil gríðarlega afmörkuð og skýr núna í 2. umr. Það sem gerðist strax á milli áranna 2013 og 2014 sveið mjög gagnvart þeim sem hér stendur. Þá var fjárveiting sett á Landspítalann og samþykkt fyrrverandi í ríkisstjórn. Þetta var búið að fara í alveg sérstaka skoðun hjá velferðarráðuneytinu á þeim tíma, fjárveiting upp á 128 milljónir sem átti að mæta miklu álagi sem varð á Landspítalanum í janúar og febrúar á árinu 2013, svo ég fari það langt aftur í tímann. Við höfðum lofað að þetta kæmi til leiðréttingar í fjáraukanum. Ný ríkisstjórn hendir henni út. Síðan hælir hún sér af því að setja 1,7 milljarða á stofnun sem fjárveitingin dróst frá og hallinn frá árinu 2013. Bætt var við 1,7 milljörðum. Á viðkomandi stofnun að borga eldri halla? Á hún ekki að borga þetta? Þetta gildir um fleiri stofnanir. Þetta þarf að vera skýrt. Þetta þarf að vera á hreinu. Er verið að borga upp halla? Er verið að bæta inn í rekstrargrunn þegar menn eru að ganga frá fjárlögum?

Ég geri ekki athugasemd við þá meginhugmynd að menn leiðrétti ekki allt í fjáraukanum og séu ekki að bjarga stofnunum þar; það verði tekið á því í fjárlögum. Og það er hægt að gera með tvennum hætti. Það má segja: Þið fóruð fram úr, þið verðið að mæta þeim halla sjálf af ykkar rekstri á næstu árum. Eða það er hægt að bæta við fjárveitingu og segja: Við ætlum að borga niður hallann fyrir ykkur og bæta við rekstrargrunninn svo að afkoman verði betri á nýju ári.

Þetta verður að vera skýrt. Hvað ætla menn að gera með Landspítalann? Ég sakna þess að hann sé hvergi hér inni. Sjúkratryggingar Íslands eru með töluvert háar upphæðir í frumvarpinu, þótt það dugi ekki miðað við kröfur til sjúkratrygginga. Hvað ætla menn að gera með Landspítalann sem er þegar kominn í 1 milljarð í halla á þessu ári? Ég geri mér grein fyrir að ríkisstjórnin muni ekki undir neinum kringumstæðum komast hjá því að bæta verulega í heilbrigðismálin. Ég treysti á að hún geri það og við munum veita henni liðsinni til þess. En verður það til þess að borga niður hallann eða verður það til þess að bæta við grunninn og inn í framtíðina?

Þegar menn þvarga um það hver hafi bætt hverju við eru það að miklu leyti orðaleikir. Heyrst hefur ítrekað úr ræðustóli að menn hafi lagt 10 milljarða í heilbrigðiskerfið. Þá eru menn komnir inn með allar verðlagsbætur, þeir taka með launa- og kjarasamninga, jafnlaunaátakið og tannlæknasamninginn. Menn leggja þetta allt saman og tala um í sama orðinu og við ræðum verkfall lækna eða stöðuna á Landspítalanum eða á öðrum heilbrigðisstofnunum í landinu. Þá er eins og menn ætli sér að reyna að sannfæra fólk um að svo miklu hafi verið bætt við að þessum stofnunum sé engin vorkunn að standast fjárlög. En það var bara ekki þannig. Það var alls ekki þannig. Bætt var við 400 milljónum í tæki og 1,7 milljörðum til þess að borga halla og fjármagna reksturinn á þessu ári. Það dugir engan veginn.

Ég hef áður sagt í þessum ræðustól að eftir að hafa farið í gegnum svona mikið áfall eins og þjóðin gerði á sínum tíma og nú þegar landsframleiðslan að aukast þá eigum við að setja okkur markmið. Hvað teljum við eðlilegt að fari í heilbrigðismál? Svo getum við rætt um það hvernig því á að skipta.

Við vorum með 9,4 til 9,5% af landsframleiðslu sem fóru til heilbrigðismála. Þegar lægst var duttum við niður í 8,8%. Ég hef ekki séð töluna fyrir árið 2014, vonandi höfum við stigið eitthvað upp á við, en ef við færum upp í 9,5% væri það 14 milljarða kr. viðbót í heilbrigðiskerfið. Það er verkefni okkar. Þess vegna sárnar manni að þegar menn fá aukið svigrúm skuli þeir ekki reyna að nýta það til að koma til móts við þennan málaflokk, fyrir utan skólamálin eða menntamálin. Þar er í sjálfu sér ekki verið að bæta miklu við. Bætt er við örlitlu til framhaldsskólanna en í raun er meiri hlutinn af þeirri viðbót tekinn til baka með fækkun nemenda og þar með færslu á nemendum út úr kerfinu yfir í greidda þjónustu hjá fullorðinsfræðslunni — sem þó fær enga viðbótarpening til að sinna þeirri fræðslu. En við eigum eftir að sjá hvernig fjárlögin æxlast.

Við vitum hverjir eru í vandræðum í samfélaginu, við höfum séð alls kyns greiningar á því. Menn tala um að skuldamillifærslan hjá núverandi ríkisstjórn komi mörgum að gagni, það er rétt, margir munu njóta góðs af henni, en ekki nærri því allir. Við vitum að barnafjölskyldur eiga undir högg að sækja. Þess vegna er sárt að sjá að menn skuli ekki nýta svigrúmið í fjárlögum í barnabætur. Sama er með vaxtabæturnar. Það er ekki hægt bæði að gefa og taka. Það eru vonbrigði að menn láti viðmiðunartölurnar síga niður þannig að út detti hópar sem annars hefðu fengið bætur, ekki bara vegna þess að laun þeirra hafa hækkað heldur hafa þeir hreinlega bara fengið kjarasamningsbundnar hækkanir. Þegar menn láta viðmið um skerðingar ekki fylgja með verður útkoman sú að fleiri fá ekki bætur. Við höldum fólki sem sagt í fátæktargildru. Þetta á við um öryrkjana líka. Við gerum okkur alveg grein fyrir að það var hart gengið að þeim á sínum tíma, en það var líka alveg ljóst að það varð að gefa til baka. Það eru vonbrigði að í raun hefur ekkert verið gefið til baka annað en það sem búið var að ákveða fyrir fram að mundi verða gefið til baka. Ekkert. Það veldur vonbrigðum.

Það eru jákvæðir punktar í fjárlögum þessa árs og í fjáraukalögunum. Ég hef til dæmis hælt hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að hafa bætt inn 200 milljónum til öldrunarstofnana. Það er sett inn varanlega í fjárlögum, en það er halli á þessum stofnunum og þar eru vandræði. Hvað duga 35 milljónir langt til að leiðrétta stöðu heilbrigðisstofnana og hjúkrunarheimila? Ég sé ekki að það muni breyta gríðarlega miklu.

Það er sláandi að sjá svör hæstv. ráðherra, t.d. heilbrigðisráðherra, við spurningum frá hv. varaþingmanni, Birni Val Gíslasyni, sem kom inn á þingið á tímabili. Þar spyr hann hvernig starfsmannahald hjá stofnunum sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti muni breytast á þessu ári og næsta ári. Það að Landspítalinn segi að það þurfi að skera aftur niður um 70–100 störf eða meira er auðvitað ekki til þess fallið að blása von eða eldmóði í brjóst þjóðar eins og hv. þm. Eyrún Ingibjörg Sigurþórsdóttir talaði um áðan. Það er ekki gefin von þegar menn löðrunga endalaust sama hópinn. Þessu þurfum við að breyta.

Ég ætla að fara yfir nokkur atriði. Í sjálfu sér geri ég ekki miklar athugasemdir við breytingartillögur frá meiri hlutanum við fjáraukalagafrumvarpið. Það vekur þó undrun mína að þar skuli vera inni ákveðnar fjárveitingar af því menn eru að reyna að búa til ný prinsipp. Ég nefndi að það væri jákvætt fyrir þingmann úr Norðvesturkjördæmi að sjá að bæði Hólaskóli og Landbúnaðarháskóli fá fjárveitingar, en það er engin stefna á bak við. Það er ekki búið að segja okkur hvað eigi að gera. Þessir skólar eru að lognast út af vegna gamals halla sem aldrei hefur verið tekið á, aldrei náðst sátt um að leysa, aldrei verið tekinn í ríkisreikningi og hreinsaður út. Þau rök fylgja Hólaskóla að hann fái 5 milljónir vegna kals í túnum. Ef það er rétt þá á það auðvitað að fara af ófyrirséðum útgjöldum, það er sérstakur liður hjá ríkisstjórninni sem er til að mæta t.d. fjárskaða eða ofsaveðri. Menn nota þann lið til þess, ekki að þessar 5 milljónir skipti miklu máli hvað það varðar.

Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra setti Landbúnaðarháskólanum alger skilyrði, bauð upp á það að fara mætti í sameiningu. Hann hefur aldrei staðfest að hann hafi boðið allt upp í 100 til 200 millj. kr. viðbótarrekstrarframlag á ári ef af sameiningu yrði og felldur yrði niður allt að 750 millj. kr. halli til margra ára. Það væri gaman að vita hvort hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, geti staðfest þessar tölur eða þessa umræðu. Hér kemur framlag upp á 15 millj. kr. til skólans. Ég fagna því, en það er engan veginn nóg. Það er engin stefna á bak við þetta um hvað eigi að gera, hvernig eigi að bjarga stöðunni, hvernig eigi að vinna áfram.

Það sama er með framhaldsskólana. Hvernig ætla menn að bregðast við með 35 millj. kr. framlagi til að bjarga þeim á þessu ári? Nema að menn séu búnir að taka ákvörðun og sjá hversu fáránleg hugmyndin í fjárlagafrumvarpinu er um að skera niður 916 nemendaígildi, sem bitnar ekki hvað síst á minnstu skólunum. Þetta getur skipt sköpum um það hvort menn geti rekið þessa skóla. Það er algjörlega úr takt við þær yfirlýsingar sem ríkisstjórnin hefur gefið og fyrirheit um að reyna að standa vel á bak við landsbyggðina. Við styðjum auðvitað, eða sá sem hér stendur, ríkisstjórnina heils hugar í að reyna að standa vörð um landsbyggðina.

Ég fagna því að í breytingartillögum fær Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra 4,5 millj. kr. til að bjarga málum fram til áramóta. Eftir að maður hefur kynnt sér málið og skoðað þetta fyrirkomulag er augljóst hvað við gerum í raun skelfilega lítið til að tryggja jafnrétti og mannréttindi hjá þessum hópi og raunar mörgum fleirum. Fyrirkomulagið er þannig og hefur komið ítrekað fram hér í ræðustól að túlkaþjónusta er greidd af hinu opinbera, bæði túlkun í heilbrigðiskerfinu og í menntakerfinu að hluta o.s.frv. Fyrrverandi þingmaður og ráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir stofnaði sjóð til að reyna að mæta þörf fyrir félagslega túlkun, þ.e. túlkun í félagslegu umhverfi, t.d. þegar fólk þarf að fara í viðtöl eða stunda að einhverju leyti félagsstörf. Það eru u.þ.b. 200 aðilar sem nýta sér þann sjóð. Þegar maður fer að reikna þetta út þá eru það níu klukkustundir á ári. Einstaklingur sem býr við þessa skerðingu og þarf á slíkri túlkaþjónustu að halda getur fengið eina klukkustund á 40 daga fresti.

Nú er það auðvitað ekki þannig að fénu sé alveg jafnt skipt á milli þessara 200 einstaklinga, en það breytir ekki því að framlagið er allt, allt of lítið. Menn kveinka sér undan því að þetta sé vegna þess að gjaldskrá vegna túlkaþjónustu hafi hækkað svo mikið og það kann að vera, en gjaldið er á milli 9 og 10 þús. kr. Þetta er verktakagreiðsla, útseld vinna með öllum gjöldum sem viðkomandi ber ábyrgð á, þar með veikindarétti og öðru slíku. Ég hef ekki heyrt sömu ræðumenn eða hæstv. ráðherra kveinka sér undan lögfræðikostnaði sem er 20 til 25 þús. kr. á klukkustund. Og ef við erum með erlendu lögfræðingana sem vinna nú mikið fyrir ríkisstjórnina, þá er það 100–150 þús. kr. á klukkustund. Menn verða að setja hlutina í samhengi.

Það sem við verðum að vinna að núna er að hugsa þetta algjörlega upp á nýtt, hætta þessum ölmusuhugsunarhætti og fara að nálgast málið út frá réttindasjónarmiðum, mannréttindum. Það kostar að lifa í þessu samfélagi. Það er misjafnt hvað það kostar mikið, en það er okkar stjórnvalda að rétta við þannig að sá kostnaður jafnist á milli fólks. Þess vegna tekur ríkið skatta og deilir þeim út aftur, til að jafna þennan kostnað.

Ég skora á hæstv. fjárlaganefnd og ríkisstjórnina að fara vel yfir þetta og nálgast málið með nýju hugarfari. Einmitt í dag er verið að ræða málefni öryrkja og stöðu þeirra út frá mannréttindasáttmálanum, Við höfum fengið alvarlegar áminningar um stöðu mála síðustu daga. Þetta svíður alltaf jafn mikið. Þótt maður hafi tekið þátt í að taka ákvarðanir sem hafa falið í sér niðurskurð gagnvart þessum hópum, þá lít ég á það sem algjöra skyldu að um leið og svigrúm skapast þá eigi þeir að vera í forgangi.

Allsherjar- og menntamálanefnd fór til ríkislögreglustjóra í morgun til að ræða áhættumat og hvað það væri sem ógnaði samfélögum. Það var mjög forvitnilegt. Á einni glæru var því lýst í meginatriðum hverjir væru helstu áhættuþættir varðandi ýmsar uppákomur, t.d. ofbeldisverk og annað slíkt. Það vakti athygli mína hversu skýrt það er hver rótin er, hver megináhættuþátturinn er að baki því að einhver fremji voðaverk eða bregðist þannig við að það skaðar fjölda manns eða eitthvað slíkt. Það er fátækt. Það er misskipting. Það er óréttlæti. Það er þegar fólk er lagt í einelti, þegar það verður fyrir misbeitingu. Það er þetta sem ógnar samfélaginu. Eigum við þá ekki að taka á því og að reyna að laga það? Mér finnst það vera eitt af þeim verðugu verkefnum sem við þurfum að glíma við.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt, en ég harmaði það við 1. umr. að hversu stuttur tími væri fyrir þessa umfjöllun. Ég gagnrýndi það þegar það kom fram að 1. minni hluti, eða raunar meiri hluti fjárlaganefndar sem leggur fram málið, hefði afgreitt frumvarpið út úr nefnd á þriðjudegi, en Seðlabankinn, sem er aðaltekjugjafinn í fjáraukanum á þessu ári, átti síðan að koma til nefndarinnar daginn eftir. Frumvarpið um Seðlabankann var þá rétt nýkomið inn í þingið og ekki búið að afgreiða það. Þar er um að ræða bókhaldsfærslur á milli ríkissjóðs og Seðlabankans. Við skulum ekki gagnrýna það að fundið sé út hvað eigi að vera eigið fé í Seðlabankanum og hvernig því sé komið fyrir. En það er útilokað að afgreiða þessi mál fyrr en sá tekjustofn, með endanlegum tölum, er a.m.k. kominn í höfn og samþykktur af þinginu.

Ég treysti líka á að samhliða 3. umr. komi fram breytingar og stefnumótun þar sem við getum gefið skilaboð inn í framtíðina um hvað standi til. Er það virkilega þannig að frekari niðurskurður sé fram undan? Ég nefndi Landspítalann. Það er nákvæmlega sama staða uppi á Norðurlandi og á Vesturlandi, þar á að fækka um þrjú, fjögur stöðugildi á næsta ári. Ekki að þær stofnanir séu reknar með halla í dag, en hvað bíður þeirra? Þau svör hafa ekki borist. Ég treysti á að þau komi við 3. umr. og við förum að taka í alvöru á málum, sem hér er verið að leysa með smáyfirklóri eins og varðandi landbúnaðarháskólana, bæði á Hólum og Hvanneyri.