144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

dagur helgaður fræðslu um mannréttindi barna.

397. mál
[14:47]
Horfa

Flm. (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um dag helgaðan fræðslu um mannréttindi barna. Flutningsmenn ásamt mér eru þau hv. þingmenn Valgerður Bjarnadóttir, Karl Garðarsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Elín Hirst og Birgitta Jónsdóttir. Þingsályktunartillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra í samráði við mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér fyrir því að 20. nóvember, dagurinn sem barnasáttmálinn var samþykktur, verði ár hvert helgaður fræðslu um mannréttindi barna í skólum landsins.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, barnasáttmálinn eins og hann er oftast kallaður, var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989. Hann var undirritaður fyrir Íslands hönd árið 1990 og fullgiltur árið 1992. Sáttmálinn boðar nýja sýn á stöðu barna í samfélaginu. Sáttmálinn skilgreinir börn sem viðkvæman hóp sem hefur sérstaka þörf fyrir vernd og umönnun. Samhliða því gengur sáttmálinn út frá því að börn séu fullgildir og hæfir einstaklingar sem búi yfir viðhorfum og reynslu sem feli í sér verðmæti fyrir samfélagið. Það var mikið fagnaðarefni þegar Alþingi ákvað einróma að lögfesta barnasáttmálann í febrúar 2013, samanber lög nr. 19/2013, um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Ísland hefur þannig viðurkennt sáttmálann með afdráttarlausum hætti en lögfesting hans felur í sér skýra stefnuyfirlýsingu um forgangsröðun með tilliti til réttinda barna.

Samkvæmt barnasáttmálanum ber aðildarríkjum að kynna efni hans með virkum hætti fyrir börnum sem og fullorðnum. Grundvallarforsenda fyrir innleiðingu sáttmálans er að fólk, börn jafnt sem fullorðnir, þekki réttindi barna og geti sett þau í samhengi við daglegt líf og starf. Einhver helsta áskorun sem við stöndum frammi fyrir á Íslandi er að auka þekkingu á innihaldi barnasáttmálans. Kannanir meðal barna sýna að íslensk börn hafa takmarkaða þekkingu á réttindum sínum og vissa tilhneigingu til að rugla saman grundvallarhugtökum á borð við „forréttindi“ og „réttindi“. Til að fullorðnir og börn geti átt innihaldsrík samtöl um mannréttindi á jafningjagrundvelli er þörf fyrir markvissari fræðslu. Eitt mikilvægasta skrefið í þá átt er að skapa umræðu um réttindi og fræða einstaklinga um birtingarmynd réttinda í daglegu lífi. Þannig gerum við börn meðvituð um eigin réttindi og komum þeim í skilning um að aðrir eigi sömu réttindi.

Hinn 20. nóvember næstkomandi, sem er dagurinn í dag, verður 25 ára afmæli barnasáttmálans fagnað. Á þeim tímamótum er mikilvægt að veita réttindum barna aukið vægi. Því vilja flutningsmenn þessarar tillögu að Alþingi ákveði að fela innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér fyrir því að dagurinn sem barnasáttmálinn var samþykktur, 20. nóvember, verði ár hvert helgaður fræðslu um mannréttindi barna í skólum landsins. Sérstakur fræðsludagur um mannréttindi barna er mikilvægt skref í þá átt að auka þekkingu barna á réttindum sínum. Má í því sambandi benda á að árið 2005 samþykktu öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Ísland, að efla kennslu um mannréttindi í skólum. Árið 2008 voru ný lög um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla samþykkt á Alþingi og nýjar aðalnámskrár fyrir öll skólastigin voru samþykktar árið 2011. Aðalnámskrá á að vera rammi utan um skólastarfið, birta heildarsýn um menntun og útfæra nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum. Sú menntastefna sem birtist í aðalnámskrá grunnskóla er reist á sex grunnþáttum menntunar. Þessir grunnþættir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Auk þess að vera byggð á lögum um grunnskóla byggist aðalnámskrá á ýmsum öðrum lögum og alþjóðlegum samningum, þar á meðal barnasáttmálanum. Það fellur vel að markmiðum skólalöggjafar og aðalnámskráa að veita mannréttindum barna aukið vægi og halda fræðsludag um mannréttindi barna ár hvert, hinn 20. nóvember, á deginum sem barnasáttmálinn er samþykktur.

Í dag er einmitt þessi dagur, 20. nóvember, og í morgun var haldin afmælisveisla í Laugalækjarskóla á vegum Barnaheilla, umboðsmanns barna og UNICEF á Íslandi. Við erum sex þingmenn sem erum nú orðnir talsmenn barna á Alþingi og undirrituðum við yfirlýsingu þess efnis í morgun sem var virkilega gleðileg stund og ánægjulegt. Ég verð að segja fyrir mína parta að þetta er sennilega einn mesti heiður sem mér hefur hlotnast, þ.e. að fá að vera sérstakur talsmaður barna á Alþingi ásamt þessum fimm félögum mínum, hv. þingmönnum.

Auðvitað búum við Íslendingar við margvísleg réttindi og þægindi og það er í raun ótrúlegt hvað við höfum það gott miðað við marga aðra. Þess vegna þurfum við líka að kenna börnum þetta enn þá meira. Sem kennari upplifði ég, í mínum skóla, að börn voru engan veginn algerlega viss um réttindi sín og um hvað þau fjölluðu. Þau þekktu kannski ekki grundvallarhugtök eins og sáttfýsi, ábyrgð, umburðarlyndi o.fl. Það kom mér verulega mikið á óvart en kannski er ekki nógu mikið talað um þetta.

Einn þingmaður kom til mín og benti mér á að nú væri til orðinn dagur læsis og það væri dagur ljóðsins og íslenskrar tungu í skólum og sennilega endaði þetta með því að einn dagur yrði tileinkaður hefðbundinni kennslu. En hvað er hefðbundin kennsla? Mér finnst einmitt það að vera með svona sérstaka daga — það er hægt að gera hvað sem er með það. Það er hægt að samþætta þetta svo daglegri kennslu. Þó að dagurinn heiti fræðsludagur um réttindi barna er svo auðvelt að samþætta þau mál inn í aðra kennslu, nánast alveg sama hvað þú ert að kenna. Það er svo auðvelt að samþætta öll þessi sjónarmið inn í daglega kennslu. Og það er eitt af því sem mér finnst að við ættum að leggja miklu meiri áherslu á á Íslandi, það er samfélagskennsla. Hún hefur ekki nógu mikið vægi í skólum. Það mætti leggja miklu ríkari áherslu á að kenna börnum hvað samfélagið gengur út á, hver eru réttindi þeirra og réttindi fólks yfir höfuð.

Við búum samt sem áður í góðu samfélagi og það getur orðið enn betra. Við eigum fullt af góðum auðlindum. Við eigum sjávarútvegsauðlindina, við eigum orku og hvað eina en dýrmætasta auðlind hverrar þjóðar og okkar þjóðar eru börnin. Það eru þau sem koma til með að takast á við framtíðina og taka við af okkur. Og ef þeim eru kennd þessi grundvallarmannréttindi og út á hvað samfélagið gengur þá erum við í góðum málum.

Umræðan í samfélaginu núna í sambandi við stjórnmál og annað er mjög hörð og óvægin og börn nema þetta. Þau nema þetta um leið og þau tileinka sér það. Við megum aldrei gleyma því að við sem erum fullorðin erum fyrirmyndir. Auðvitað verður manni stundum á þannig að maður segir jafnvel einhverja hluti í návist barna sem maður á alls ekki að segja en það er bara eins og það er. Við erum fyrirmyndir og ég er mjög stoltur af því að fá að taka þátt í þessu verkefni. Til dæmis í morgun gekk yfirlýsing okkar út á að við ættum alltaf að setja upp barnagleraugun þegar við værum að innleiða lög og reglur. Við fengum þau gleraugu og ég ætla að leyfa mér að setja þau upp til að leyfa ykkur að sjá hvað þau eru falleg, virðulegi forseti. Þetta eru barnagleraugu sem gera að verkum að þegar við setjum þau upp horfum við á samfélagið með augum barnsins. Ég er ekki frá því að maður sé eins og lítið barn þegar maður er kominn með þetta á nefið.

Ég vonast til að þessi tillaga fái gott brautargengi og að henni verði vísað til allsherjar- og menntamálanefndar og ég hlakka til að takast á við þetta. Ég veit að við sem erum á ályktuninni, þeir hv. þingmenn sem eru með mér í þeim hópi, erum öll áfram um að sinna þessu mjög vel.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.