144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[10:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru sérstaklega dapurleg tíðindi að heyra að ríkisstjórnarflokkarnir ætla að rjúfa þá sátt sem unnið hefur verið að árum og áratugum saman um vernd og nýtingu náttúruauðlinda í landinu. (Gripið fram í.) Það er algjörlega ótrúlegt að sjá þá ganga fram með slíkum fruntaskap.

Ég spyr: Stenst það að gera í meðferð þingnefndar slíkar grundvallarbreytingar á þingsályktunartillögu sem sætir bara tveimur umræðum? Þá sætir tillagan um að allar þessar virkjanir fari í nýtingarflokk ekki tveimur umræðum.

Mér finnst full ástæða til að hæstv. forseti komi í veg fyrir þá valdníðslu sem hér á sér stað. Það er mjög alvarlegt ef ekki er hægt að treysta því að þessi ríkisstjórn sé tilbúin að standa með lögum sem hér hafa verið samþykkt með öllum greiddum atkvæðum fyrir örfáum árum og fela í sér tilraun til sátta í erfiðasta deilumáli þjóðarinnar undanfarna áratugi.

Það er ótrúlegt að upplifa þetta.