144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[10:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er svo sem hægt að ræða mál af þessum toga undir liðnum fundarstjórn forseta, en málið á auðvitað best heima í nefndinni sjálfri og í þeirri umræðu sem fer fram í kjölfarið hér í þingsal.

Það er hins vegar athyglisvert að svona stór orð skuli nú falla af vörum stjórnarandstæðinga sem studdu síðustu ríkisstjórn. Þeir hafa greinilega ekki lesið bók hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem gerir því góð skil hvernig nákvæmlega þetta mál var andlag hrossakaupa fyrri ríkisstjórnar. (Gripið fram í: Uss.) Já, það er alveg svakalegur lestur … (Gripið fram í: Það er ekki …) Virðulegi forseti. (Gripið fram í: Þarna situr …) Það er svakalegur lestur (Gripið fram í.) hvernig Evrópusambandsmálið og nákvæmlega þetta mál (Gripið fram í: Bókin …) gekk hrossakaupum milli stjórnarflokka þess tíma. Svo koma menn hingað upp, skinheilagir, og segja: Þetta mál er málið sem aldrei má snerta (Gripið fram í.) vegna þess að það þarf að byggja brýr og skapa sátt á milli flokka. (Gripið fram í.) Lesið bara bókina. (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Það má … vitna í bókina …) (Forseti hringir.)