144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[10:41]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með þróun mála. Í gær var í hv. umhverfis- og samgöngunefnd verið að afgreiða umsögn nefndarinnar vegna færslu Hvammsvirkjunar í nýtingarflokk. Daginn eftir er svo tilkynnt um að bæta eigi við átta virkjunarkostum í nýtingarflokk af hálfu hv. atvinnuveganefndar.

Ég held að hæstv. fjármálaráðherra ætti frekar að einbeita sér að því að lesa samstarfsyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnarflokka sem felur í sér að horfið skuli af leið deilna og hjaðningavíga sem einkennt hafa íslenska pólitík og taka upp vönduð vinnubrögð og leita sátta frekar en að vera að lesa ævisögur sem lýsa atburðarás frá sjónarhóli eins manns.

Það kemur nefnilega í ljós í þessu máli að það er bara kjaftæði sem stendur í því plaggi, það er algert kjaftæði. Menn meina ekkert með því sem þeir segja í þessari samstarfsyfirlýsingu.