144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[10:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hélt að það væri nóg komið í bili þegar Landsnet og Vegagerðin hafa sett af stað mat á umhverfisáhrifum af háspennulínum og uppbyggðum vegi þvert yfir miðhálendið. En þegar þetta bætist nú við er ekki hægt að segja að horfi friðlega um umhverfismál á Íslandi.

Varðandi breytingarnar sem gerðar voru á rammaáætlun á síðasta kjörtímabili í meðförum ráðuneyta og í umsagnarferli um þær áður en þær komu til þingsins þá var eins og hér hefur réttilega verið bent á eingöngu um það að ræða að á faglegum forsendum voru nokkur svæði sett í biðflokk, ekki var flokkun eins einasta svæðis breytt varanlega. Og verkefnisstjórnin hefur núna sjálf í raun fallist á það að í fimm tilvikum af sex þurfi þessir kostir, eins og Urriðafoss og Hvammsvirkjun, frekari rannsókna við. Nú liggur fyrir fagleg staðfesting á því að breytingarnar sem gerðar voru á síðasta kjörtímabili áttu við rök að styðjast og var full þörf á þeim.

Að lokum spyr ég: Hvar er hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, eða öllu heldur maðurinn sem er sagður fara með umhverfis- og auðlindamál? (Forseti hringir.) Hér er verið að leggja til að henda tillögu hans, stjórnartillögunni. Það væri lágmark (Forseti hringir.) að ríkisstjórnin tæki málið aftur til sín og ráðherrann (Forseti hringir.) flytti nýja tillögu ef hann hefur geð í sér til þess.