144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[10:55]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í aumum málflutningi sínum fyrir þessu reyna menn hér að koma og bera fyrir sig aðferðafræði sem beitt var á síðasta kjörtímabili við ákvörðunartöku um hvar ákveðnir virkjunarkostir skyldu lenda. Förum þá heiðarlega yfir það hvernig það var gert. (Menntmrh.: Það er búið.) Þegar verkefnisstjórnin hafði skilað af sér var niðurstaðan send í 12 vikna opið umsagnarferli. Það komu fleiri hundruð athugasemdir við ákveðna virkjunarkosti sem olli því að þeir ráðherrar sem að málinu stóðu ákváðu að það væri eðlilegast að verkefnisstjórnin, sem hefði hið faglega mat og hin faglegu matstæki, tæki þá kosti sem fengu hvað mestar efnislegar athugasemdir og endurmæti þá og legði síðan fyrir þingið. Það voru öll ósköpin, öll hrossakaupin, öll hræðilegheitin.

Má ég þá biðja um að þessi ríkisstjórn fari að minnsta kosti sömu leið með málið, taki þessa átta kosti (Forseti hringir.) — nota bene, þeir voru eingöngu sex á síðasta kjörtímabili — og biðji verkefnisstjórnina (Forseti hringir.) um að endurmeta þá, (Forseti hringir.) ef ráðherrar ætla að beita sömu aðferðum og (Forseti hringir.) fráfarandi ríkisstjórn gerði og fráfarandi þingmeirihluti. Það er lágmark. (Forseti hringir.) Ef menn ætla að beita fyrir sig (Forseti hringir.) aðferðafræðinni þá skulu (Forseti hringir.) þeir fylgja henni.