144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[10:56]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Deilan um virkjun og vernd hefur verið uppspretta sundurlyndis og tortryggni í þessu samfélagi um áratugaskeið. Langsigurstranglegasta og besta leiðin sem við höfum til þess að vinna að skynsamlegum ákvörðunum um virkjun og vernd er rammaáætlun. (Gripið fram í.) Það verður að bera virðingu fyrir því ferli.

Hvað var gert á síðasta kjörtímabili? Það var farið í 12 vikna umsagnarferli eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir rakti hér áðan. Leitað var álits verkefnisstjórnarinnar og vissulega var tillögum hennar breytt eftir um 200 umsagnir.

Núna ætla ríkisstjórnarflokkarnir að lauma inn breytingum, ekki bara þeim sex virkjunarkostum sem voru settir í biðflokk á síðasta kjörtímabili eftir þetta vandaða ferli, heldur tveimur að auki inn í nýtingarflokk — á milli umræðna. Á milli umræðna bara sisvona. (Gripið fram í: Af hverju taka þeir ekki bara Gullfoss líka?) Já, hvers vegna ekki? (Forseti hringir.) Þetta er auðvitað stríðshanski, þetta endurspeglar alveg ótrúlegt virðingarleysi (Forseti hringir.) gagnvart því tæki sem við þó höfum og verðum að bera virðingu fyrir sem er rammaáætlun.