144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[11:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það verður seint sagt um þessa ríkisstjórn að hún sé átakafælin. [Hlátur í þingsal.] Hún velur sér hvert verkefnið á fætur öðru til að segja stríð á hendur þjóðinni. Nú segir hún stríð á hendur náttúrunni og umhverfissamtökum í landinu. Hún segir stríð á hendur þinginu og vönduðum vinnubrögðum. Hún segir stríð á hendur verkefnisstjórn. Það er vantraust á verkefnisstjórn að haga sér svona. Hennar helsta haldreipi er skáldsaga Össurar Skarphéðinssonar. Hvar erum við stödd? Erum við ekki á þjóðþingi þjóðarinnar? Vitnað er í þetta eins og það sé eitthvert þingskjal, einhver samsetning á skáldsögu í bland við æviminningar fullorðins manns. Hvað er í gangi hér? Og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra blandar sér í þá umræðu og heldur áfram að vitna í það.

Í atvinnuveganefnd í morgun talaði hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður nefndarinnar, um að við fengjum minnisblað sem styddi ákvörðun hans. Við erum ekki farin að sjá það minnisblað enn þá og það kemur ekki fram hver samdi það (Forseti hringir.) en það á að koma innan úr atvinnuvegaráðuneyti. Ég kalla eftir því.