144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[11:05]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér erum við í meiri hluta atvinnuveganefndar sökuð um að hafa ekki unnið á faglegum nótum og með efnislegum rökum. Það er alrangt.

Það vill nefnilega þannig til að allar þær athugasemdir sem bárust um þessi mál á sínum tíma í ferlinu, og eins þær athugasemdir sem eru tilgreindar hjá þeirri verkefnisstjórn sem nú var að skila af sér verki, snúa að þáttum sem ekki eiga heima í umfjöllun um rammaáætlun. Þær snúa að þáttum sem eiga heima í umhverfismati framkvæmda. Þar má til dæmis nefna mótvægisaðgerðir vegna laxveiða í neðri hluta Þjórsár. Þetta á allt saman heima í umhverfismati framkvæmda og það þarf ekki að láta hér eins og ekki eigi að fara fram fagleg umfjöllun um þessa virkjunarkosti. Þetta á allt eftir að fara í umhverfismat og það á eftir að fara í gegnum mikið ferli áður en fleiri skref verða stigin.

Ef lætin eru hér öll út af því að umsagnarfresturinn sé ekki nægilega langur um þetta mál, sem er mikil breyting, þá skal þess getið að það er sérstaklega tekið fram í boði til umsagnaraðila að óski þeir eftir lengri umsagnarfresti þá fá þeir hann. Það er sérstaklega tekið fram,(Forseti hringir.) og tekin var ákvörðun um það á fundi nefndarinnar í morgun, að óskum umsagnaraðila um lengri umsagnarfrest (Forseti hringir.) verður mætt ef þeir óska þess. Það er ekkert vandamál. Við erum ekkert að hraða þessu hér í jólaösinni (Forseti hringir.) eða kýla þetta mál í gegn. Það fá allir að tjá sig um þetta mál sem þess óska. Hv. þingheimur þarf ekki að hafa áhyggjur af því.

(Forseti (EKG): Forseti vill biðja hv. þingmenn að virða tímamörk.)