144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[11:07]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég notaði nú dálítið stórt orð og stærra orð en ég er vanur að nota í þessum ræðustól áðan þegar ég sagði „kjaftæði“ um vilja núverandi ríkisstjórnarflokka til þess að vinna á faglegri nótum og vandaðri. En mig langar til að lesa upp úr samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið.“

Þvílíkt kjaftæði! Þvílíkt rugl! Þvílíkir hræsnarar eru það sem láta slíkt frá sér og segjast starfa eftir því og koma síðan með svona vinnubrögð hérna inn í þingið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þvílík hræsni! Ég hef aldrei orðið vitni að öðru eins í þessum þingsal, (Gripið fram í: Af hverju fórstu …) að menn skuli koma fram á þennan hátt hér og láta eins og ekkert sé af því að einhver annar hefur gert eitthvað sem er líka slæmt. Það er leiðarljósið á borði hæstv. iðnaðarráðherra, bók hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Hún er leiðarljós ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Þvílík hræsni og þvílíkt kjaftæði! (Gripið fram í: Leiðarljós eitt úr Samfylkingunni …)