144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

breytingar á virðisaukaskatti.

[11:20]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra lagði af stað í för til einföldunar á virðisaukaskattskerfinu og í því skyni taldi hann brýnast að hækka verð á matvælum. Nú sjáum við tillögur ríkisstjórnarinnar og þær ná varla því markmiði að tryggja aukna einföldun í kerfinu. Nú mun hefjast mikill ágreiningur um hvaða staðir teljist baðstaðir og borgi vask og hvaða staðir teljist sundstaðir og borgi ekki vask. Væntanlega verður skilgreiningin sú hvort það er klór í vatninu eða ekki. Nú mun hefjast mikill ágreiningur milli safna sem hafa verið svo heppin að fá opinbera viðurkenningu á starfsemi sinni og eiga ekki að borga vask og hinna safnanna sem ekki hafa hlotið opinbera viðurkenningu og munu greiða vask. Flækjustigið mun aukast.

Framsóknarflokkurinn hafði uppi stórar yfirlýsingar um að hann mundi standa gegn hækkun matarskatts og krefjast alvörubreytinga. Nú erum við búin að fá verðmat á Framsóknarflokkinn. Hann er metinn upp á 1% með lækkun matarskattsins úr 12% í 11%.

Síðan birtist tafla frá fjármálaráðuneytinu í gær sem sýnir áhrif þessara breytinga á ráðstöfunartekjur eftir tekjuhópum. Af þeim gögnum má ráða að breytingarnar munu gagnast best þeim tekjuhæstu og þeim mun betur eftir því sem fólk er með meiri tekjur. Þannig munu ráðstöfunartekjur 10% ríkustu landsmannanna aukast fjórfalt meira en þeirra sem eru á meðaltekjum.

Virðulegi forseti. Einföldunarleiðangur hæstv. fjármálaráðherra er úti í mýri og réttlætisleiðangurinn, tilraunin til að sýna fram á að þessi breyting muni ekki bitna meira á þeim sem minnst hafa milli handanna, hefur líka mistekist þó að 1%-flokkurinn sé sáttur. Virðulegi forseti, er ekki tími til kominn að hæstv. ráðherra fari að hugsa sinn gang í þessu máli?