144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

breytingar á virðisaukaskatti.

[11:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Vandi hæstv. fjármálaráðherra í þessari umræðu er að hann þylur alltaf eigin útleggingar á stefnu annarra. Við höfum margsinnis sagt, þó að hæstv. fjármálaráðherra hafi aldrei hlustað á það sem sagt er hér í þingsal, að við styðjum afnám vörugjalda. En það er fullkomlega óeðlilegt og ómálefnalegt að fjármagna það með auknum álögum á viðkvæmasta útgjaldalið venjulegs launafólks, matvælin, og það er þar sem ágreiningurinn hefur staðið.

Útreikningarnir sem hafa verið settir fram núna sýna að ávinningurinn er þeim mun meiri sem fólk er tekjuhærra. Það liggur fyrir og má ráða af tölunum sem fjármálaráðuneytið sjálft hefur sett fram.

Þar fyrir utan, virðulegi forseti, er ekki búið að taka tillit til þess í þessum útreikningum að matarútgjöld eru stærri hluti útgjalda tekjuminni heimila en annarra og það mun skekkja stöðuna þeim í óhag. Hæstv. fjármálaráðherra getur því flutt hér eigin ræður, sem hann er búinn að æfa vel með sínum aðstoðarmannaher, (Forseti hringir.) um afstöðu Samfylkingarinnar í þessu máli, en hann verður að (Forseti hringir.) svara því hvernig þetta á að nýtast lágtekjufólki í landinu.