144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

upplýsingar um skattaskjól.

[11:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég skil það sem svo að skattrannsóknarstjóri hafi í raun fulla heimild til þess að kaupa gögnin svo fremi sem þau séu metin vænleg til árangurs. Við höfum auðvitað dæmi um það frá Þýskalandi, til að mynda samkvæmt því sem hefur verið birt í þarlendum fjölmiðlum, að slíkar aðgerðir hafi í raun og veru skilað ríkinu miklu meiri tekjum en þau gjöld sem þurfti til að leggja út í kostnaðinn.

Hæstv. ráðherra nefnir hér svokallað Amnesty-ákvæði. Það er hins vegar væntanlega ekki forsenda þess að þetta verði gert núna. Það er hægt að ráðast í þessa aðgerð núna án þess að slíkt liggi fyrir, það er í skoðun. En þá spyr ég hæstv. ráðherra, því að nú liggur líka fyrir niðurskurður á fjárveitingum til embættis skattrannsóknarstjóra: Getur skattrannsóknarstjóri ráðist í þetta án þess að til komi fjárveiting frá ríkinu? Og hvernig nákvæmlega á þá að höndla með það á tímum þar sem verið er að skera niður til embættisins? Munum við sjá einhverjar tillögur um fjárveitingar til embættisins þannig að það geti ráðist í aðgerðina, hafi það heimild til þess og telji það vænlegt til árangurs? Mig langar að fá mat hæstv. ráðherra á því hvernig verði þá brugðist við því (Forseti hringir.) með tilliti til fjárveitinga.