144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

verkefnisstjórn rammaáætlunar.

[11:34]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það var mér og nokkrum öðrum hér á þingi nokkuð þungbært á síðasta kjörtímabili að samþykkja tillögu að flokkun rammaáætlunar sem fól í sér virkjunarkosti sem voru mér og mörgum öðrum þvert um geð. Ég nefni til dæmis virkjunarkosti á Reykjanesi eins og Eldvörp, vatnsaflsvirkjun eins og Hvalárvirkjun á Ströndum, sem maður samþykkti þó að væri manni þvert um geð, eins og ég sagði, vegna þess að maður bar virðingu fyrir því verkferli og því verkfæri sem felst í rammaáætlun. Manni fannst það vera skylda sín að taka þátt í því að leysa málið með faglegum hætti þannig að til framtíðar horfði í þessum málaflokki vegna þess að hann hefur einkennst af gríðarlegum deilum og átökum og hefur meira að segja verið sá málaflokkur þar sem menn hafa gengið fram og sprengt upp mannvirki í ósætti.

Nú langar mig að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra, í ljósi þeirra tíðinda sem nú blasa við, að hv. atvinnuveganefnd leggur til að átta kostir verði færðir í nýtingarflokk, hvort hún styðji þessar fyrirætlanir fyrir það fyrsta. Í annan stað: Hver er hennar hugmynd að verkefnisstjórn um rammaáætlun núna? Ætlar hæstv. ráðherra að leysa verkefnisstjórnina upp og senda hana heim? Hvert er hlutverk hennar ef ákvarðanatakan hefur verið færð með þessum hætti inn í þingið? Látum liggja milli hluta þá virkjunarkosti sem vegna umsagna voru teknir og settir í biðflokk, tökum bara Hagavatn og Hólmsá sem voru ekki færðir með þeim hætti heldur voru ókláraðir — lítur hæstv. iðnaðarráðherra þannig á að það sé í lagi að taka þá kosti úr höndum verkefnisstjórnar?

Fyrst og síðast: Hvað á verkefnisstjórn um rammaáætlun að gera núna að mati hæstv. ráðherra?