144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

verkefnisstjórn rammaáætlunar.

[11:39]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Hér er enn gripið til þess ráðs að halda því fram að farið hafi verið út úr ferlinu á síðasta kjörtímabili. Það var 12 vikna lögbundið umsagnarferli sem leiddi til þess að ákveðnir virkjunarkostir voru settir í biðflokk. Það er ákaflega mikilvægt að þetta liggi fyrir hér. Sá sem hér stendur tók ekki þátt í neinum samningaviðræðum í neinum herbergjum um þetta heldur fór fyrst og síðast eftir því faglega ferli sem lá til grundvallar. Ef til vill man hæstv. ráðherra eftir því að sá sem hér stendur var ekki þátttakandi í stjórnarflokkum síðasta veturinn hér á þingi heldur tók faglega afstöðu til þeirrar niðurstöðu sem lá fyrir.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út af því að honum virðist vera orðið svolítið umhugað um það að klára verkefni: Hvað gerist eftir að umsagnarferli lýkur hjá hæstv. atvinnuveganefnd? Eiga þær umsagnir að fara til verkefnisstjórnarinnar? (Forseti hringir.) Fær verkefnisstjórnin að fara yfir málið og þessar (Forseti hringir.) virkjunarhugmyndir? Eða lítur ríkisstjórnin svo á að hennar verkefni og hennar störfum sé lokið?