144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

skilgreining grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins.

[11:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Grunnatriði íslenskrar heilbrigðisþjónustu er að allir eigi að hafa sem jafnastan aðgang að heilbrigðisþjónustu, burt séð frá búsetu eða tekjum eða öðru því um líku.

Ég vil svara því til þegar hér er sagt að við vitum ekki hvað við fáum fyrir skattana að það liggur alveg fyrir að heilbrigðisþjónusta á Íslandi í dag og í gegnum tíðina hefur skilað okkur þeim árangri að heilbrigði þjóðarinnar í samanburði við aðrar þjóðir er mjög gott. Við fáum því eitthvað fyrir þá skatta sem við höfum lagt inn í þennan málaflokk. Við megum ekki gleyma því í þessum samanburði að okkar ágæta starfsfólk í heilbrigðisþjónustunni vinnur þar frábæra vinnu. (JÞÓ: … tímalínu?) Tímalínan er sú að ég get svarað þessu betur eftir því hvernig samningar Sjúkratrygginga og Landspítalans ganga á komandi ári. Þar erum við að þreifa okkur áfram með stóra samhengið. Svo eru önnur verkefni, t.d. í heilsugæslunni þar sem verkefni hófst á þessu ári og ég vænti þess að við verðum búin að skilgreina fjármögnun á heilsugæslunni í upphafi næsta árs. Við munum sjá á komandi ári betri útlínur á því hvað háttvirtur skattgreiðandi fær fyrir þá fjármuni sem í (Forseti hringir.) málaflokkinn eru lagðir.