144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

áætlun um afnám gjaldeyrishafta.

[11:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er rétt að ekki hefur verið sett önnur heildstæð áætlun um afnám gjaldeyrishafta frá því að hin síðasta var samþykkt og lögð fram. Það er hins vegar þannig með þetta verkefni að áætlunin og grunnstefið í sérhverri áætlun um afnám hafta er að lágmarka þrýsting á gengi krónunnar og sveiflur í efnahagslífinu samhliða því sem við leysum krónuvandann. Og það hvernig áætlunin er framkvæmd frá einum tíma til annars kann að taka breytingum eftir því hvernig undirliggjandi stærðir þróast, hvernig þátttaka í útboðum er o.s.frv.

Eitt af því sem er til skoðunar núna er hvað eigi að gera með áframhaldandi útboð. Í vinnu undanfarna mánuði með aðkomu erlendra ráðgjafa hafa allir kostir verið skoðaðir. Öllu hefur verið velt upp á borðið sem kann að koma til álita til hjálpar við að afnema gjaldeyrishöftin. Það hefur ekkert verið undan skilið. Við höfum lagt áherslu á lögfræðilega greiningu, efnahagslega greiningu og ekkert síður taktíska greiningu og reynt að taka með í þessari skoðun hvers konar hvatar hjálpa til við að ná þeim árangri sem við sækjumst eftir hér, að losna undan gjaldeyrishöftunum.

Varðandi útgönguskattinn sérstaklega þá er hann meðal þess sem hefur komið til skoðunar en það liggja ekki fyrir neinar ákvarðanir um það hvort sú leið kunni að gagnast eða með hvaða hætti verði best að beita henni né heldur um einhverjar prósentur í því samhengi.