144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

áætlun um afnám gjaldeyrishafta.

[11:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við munum sannarlega þurfa að ræða þessi mál nánar þegar frekari tillögur fæðast til næstu skrefa í þessum haftaafnámsmálum. En það sem hefur talsvert litað umræðuna hér á landi undanfarin missiri og ár eru hagsmunir stóru kröfuhafanna í þessu máli sem virðast til að mynda hafa haft greiðan aðgang að erlendum fjölmiðlum og hafa oft á tíðum haldið uppi miklum hræðsluáróðri þegar staðreyndin er sú að við öll sem erum hér inni, allir Íslendingar, öll íslensk heimili, íslensk fyrirtæki, lífeyrissjóðir og aðrir eru fastir í sömu höftum og slitabúin. Það eina sem gagnast okkur til langs tíma er að finna lausn sem tekur og stillir framar öllu öðru íslenskum þjóðarhagsmunum, ekki sérhagsmunum eða sérvæntingum þeirra sem eiga kröfur á slitabúin. Þeir munu án vafa gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hræða menn til að taka þeirra hagsmuni fram yfir aðra en við verðum af yfirvegun að gæta þess að hafa heildarhagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.