144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[11:59]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur verið gefin vika til umsagnar og ljóst er að það er mjög skammur tími. Þingmönnum liggur mikið á hjarta við að reyna að koma þessu máli á hreint með einhverjum hætti. Það verður enginn friður um þingstörfin í dag fyrr en það verður gert. Það tel ég að hæstv. forseti þurfi að taka tillit til, gera núna hlé á þessum fundi og kalla til þingflokksformenn til að fara yfir þessa málsmeðferð.

Mig langar vegna þeirrar umræðu að spyrja — af því að hæstv. iðnaðarráðherra gengur hér fram hjá og er hér í salnum — þar sem menn hafa ákveðið að gera bók hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og gjörðir fyrrverandi ríkisstjórnar að leiðtoga lífs síns í þessu máli, hvort menn séu þá ekki til í að fylgja nákvæmlega sama ferli, þ.e. að senda málið út í opið umsagnarferli í 12 vikur, síðan til umfjöllunar í þingnefndum og að lokum senda allar umsagnir til verkefnisstjórnar til endurmats. (Forseti hringir.) Það var nákvæmlega aðferðafræðin sem fyrrverandi ríkisstjórn beitti í málinu. Það virðist vera sú aðferðafræði sem menn tala um að sé til fyrirmyndar en svo gera menn eitthvað allt annað.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þetta verði þá kannski sáttatillaga forseta í málinu.